Fótbolti

Hamren: Við höfum allt að vinna

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í París skrifar
Erik Hamren, landsliðsþjálfari í fótbolta, segir að strákarnir okkar hafi engu að tapa gegn heimsmeisturunum. Ísland mætir Frakklandi á Stade de France í undankeppni EM 2020 í kvöld.

Okkar menn höfðu 2-0 sigur gegn Andorra ytra á föstudagskvöldið en það var fyrsti leikur þeirra í undankeppninni. Frakar unnu á sama tíma sigur á Moldóvu, 4-1. En þrátt fyrir að leikurinn í kvöld sé gerólíkt verkefni frá leiknum á föstudag eiga þeir þó eitt sameiginlegt, að sögn Hamren.

„Hugarfarið skiptir mestu máli í öllum leikjum. Það var hugarfarið sem skipti máli gegn Andorra vegna eðli þess leiks. Það er líka hugarfarið sem skiptir mestu á morgun en það er af allt öðrum ástæðum. Á föstudag höfðum við öllu að tapa en á morgun höfum við allt að vinna. Ég vona að við getum sýnt það,“ sagði þjálfarinn.

Hamren segir gott að íslenska liðið búi að þeirri reynslu að hafa spilað á tveimur stórumótum, það nýtist sérstaklega vel í leikjum sem þessum í kvöld.

„Þeir vita hvernig það er að spila á þessum stóra leikvangi. Svo eru aðri sem hafa minni reynslu en þessir reynslumeiri geta verið fordæmi fyrir hina,“ sagði hann.

Franska liðið er ógnarsterkt og mun mæða mikið á íslensku vörninni í kvöld. Hamren hvetur sína menn til að vera samstilltir í leiknum. „Við getum ekki spilað á þá einn á einn. Við þurfum að gera þetta saman, eins og Ísland hefur gert svo mörgum sinnum áður. Við þurfum að vinna saman sem liðsheild, þá eigum við möguleika.“

Vísir fylgir eftir strákunum okkar á leið þeirra á lokakeppni EM 2020 í knattspyrnu. Stöð 2 Sport sýnir fjölda leikja í undankeppninni næstu daga, fylgstu með dagskránni á stod2.is.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×