Fótbolti

Hamren: Þeir skoruðu of mikið

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Landsliðsþjálfari Íslands, Erik Hamrén, hrósaði Frökkum fyrir góða frammistöðu í 4-0 sigri á Íslandi í undankeppni EM 2020 í kvöld. Hann sagði hausinn hafa farið hjá íslenska liðinu eftir annað mark Frakka.

„Frakkar eru heimsmeistarar og það sýndu þeir í dag. Þeir spiluðu virkilega vel, við byrjuðum ágætlega en hefðum getað verið aggressívari,“ sagði þjálfarinn við Eirík Stefán Ásgeirsson úti í Frakklandi í leikslok.

„Við töpuðum boltanum of auðveldlega. Síðustu fimmtán, tuttugu mínúturnar í fyrri hálfleik og fyrstu þrjátíu í seinni hálfleik gerðum við ágætlega.“

„Ég er ekki ánægður með síðustu fimmtán mínúturnar. Þeir skoruðu of mikið.“

Eftir að hafa haldið Frökkum í einu marki í rúman klukkutíma komu þrjú mörk á færibandi á síðustu tuttugu mínútunum.

„Við vorum búnir að hlaupa mikið án bolta. Þegar þeir komust í 2-0 held ég að hausinn hafi aðeins farið.“

„Þegar það er 1-0 þá áttum við alltaf möguleika. Birkir Bjarnason átti mjög gott skot sem var varið, en eftir 2-0 þá vissum við að þetta ætti eftir að vera erfitt.“

„Ég hrósa samt Frökkum frekar heldur en að gagnrýna okkur því við vorum að spila við virkilega gott lið.“

„Þeir áttu fimm skot á markið og skoruðu fjögur. Það sýnir gæði.“

Gylfi Þór Sigurðsson og Albert Guðmundsson voru í fremstu línu hjá Íslandi í kvöld. Var það besta staðan fyrir Gylfa á vellinum?

„Já, að sjálfsögðu finnst mér það, þess vegna setti ég hann þangað.“

„Hann er mjög góður í þessari stöðu fyrir okkur. En við vorum ekki með boltann fyrsta hálftímann.“

Hefði íslenska liðið getað gert betur í dag? „Við reyndum hvað við gátum, við hefðum getað byrjað betur og gert betur í lokin, en það þarf líka að sjá að við spiluðum við gott lið sem stóð sig vel í dag.“

Eftir fyrstu tvo leikina í undankeppninni er Ísland með 3 stig úr tveimur útileikjum. Er Hamrén sáttur með þessa fyrstu viku undankeppninnar?

„Ég vonaðist eftir meiru í dag, og við reyndum að fá meira, svo nei, ég er ekki glaður í kvöld. Mörg lið eiga eftir að lenda í erfiðleikum hér, Frakkar eru hæst skrifaða liðið í riðlinum, en við vildum meira.“

„Með fjögur mörk á okkur þá erum við aðeins svekktari en ef þeir hefðu skorað minna,“ sagði Erik Hamrén.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×