Innlent

Veturinn hvergi farinn

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Líkur eru til að élin verði í efnismeiri kantinum á fimmtudaginn.
Líkur eru til að élin verði í efnismeiri kantinum á fimmtudaginn. Vísir/vilhelm
Ljóst er að veturinn er ekki tilbúinn að sleppa takinu á landinu ef marka má veðurspá næstu daga. Él og kuldi eru handan við hornið.

Að sögn veðurfræðings heilsar dagurinn í dag þó með suðvestan strekkingi eða allhvössum vindi. „Í staðbundnum vindstrengjum nær vindur sér betur á strik og nú mælist stormur á nokkrum stöðum norðanlands. Á austanverðu landinu er léttskýjað og má búast við sólríkum degi þar. Einhver smávegis væta er enn að gera vart við sig vestan megin á landinu, en það styttir upp að mestu þegar líður á daginn og einnig dregur úr vindi smám saman,“ segir veðurfræðingur á Veðurstofunni nú í morgunsárið.

Hitinn í dag verður á bilinu 2 til 7 stig en það mun kólna með kvöldinu.

Lægð sem nú er stödd yfir Nýfundnalandi mun dýpka og nálgast okkur „hratt og örugglega.“ Hún mun stýra veðrinu á landinu í nótt og á morgun, með hvassviðri og rigningu eða slyddu. Það snýst svo í suðvestan hvassviðri á morgun, jafnvel storm með snjóéljum og kólnandi veðri.

„Ef við gægjumst lengra fram í tímann, þá er áfram búist við suðvestanátt á fimmtudaginn. Vindurinn gefur eftir og verður víða strekkingur að styrk, en hins vegar eru líkur til að élin verði í efnismeiri kantinum á fimmtudaginn,“ segir veðurfræðingurinn.

Þá er útlit fyrir hægari vind og úrkomuminna veður á föstudag og laugardag. Hins vegar er kuldi í kortunum þessa daga.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á miðvikudag:

Sunnan 13-20 m/s framan af degi og rigning eða slydda, en úrkomulítið um landið norðaustanvert. Hiti 1 til 6 stig. Vestlægari síðdegis með éljum og kólnar í veðri.

Á fimmtudag:

Suðvestan 10-15 og éljagangur, en þurrt á Austurlandi. Hiti um eða rétt undir frostmarki.

Á föstudag:

Norðvestan 3-8, en 8-13 austanlands. Él um landið norðanvert, en víða bjart í öðrum landshlutum. Frost 0 til 6 stig. Hægviðri og léttskýjað um kvöldið og herðir á frosti.

Á laugardag:

Hæg breytileg átt og víða bjart framan af degi. Gengur í suðvestan 8-13 seinnpartinn með snjókomu eða slyddu sunnan- og vestanlands. Minnkandi frost.

Á sunnudag:

Útlit fyrir suðvestanátt með úrkomu og hita kringum frostmark, en þurrt norðaustantil á landinu.

Á mánudag:

Norðlæg eða breytileg átt, skýjað með köflum og stöku él. Frost um mestallt land.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×