Innlent

Vilja ekki kyngja skerðingu framlags

Sighvatur Arnmundsson skrifar
Aldís Hafsteinsdóttir, formaður SÍS er ósátt.
Aldís Hafsteinsdóttir, formaður SÍS er ósátt. FBL/Anton Brink
„Ef þetta verður að veruleika þá erum við að tala um skerðingu á tekjum sveitarfélaga um alls 3,4 milljarða á næstu tveimur árum. Við erum ekki tilbúin að kyngja þessu því sveitarfélögin sinna náttúrulega mikilvægri nærþjónustu og þurfa til þess tekjur,“ segir Aldís Hafsteinsdóttir formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga (SÍS) um áformaða skerðingu á framlögum ríkisins í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga.

Umræddur niðurskurður er meðal tillagna sem er að finna í drögum að ríkisfjármálaáætlun 2020-2024. Hlutverk Jöfnunarsjóðs er að veita sveitarfélögum fjárframlög til að jafna mismunandi útgjaldaþörf og skatttekjur sveitarfélaga.

Stjórn SÍS samþykkti á fundi sínum í gær harðorða bókun þar sem niðurskurðinum er mótmælt. Þar segir meðal annars að aðgerðin sé árás á sjálfsákvörðunarrétt og fjárhagslegt sjálfstæði sveitarfélaga. Þá gætu fyrirætlanirnar haft áhrif á samskipti ríkis og sveitarfélaga.

Aldís segir að stjórnin hafi velt því fyrir sér að stíga mjög afdrifarík skref en ákveðið að fara í viðræður við ríkisvaldið. Skili þær viðræður ekki árangri verði gripið til róttækra aðgerða.

„Ríkið er að reyna að loka gatinu því það er með markmið um að skila 28 milljarða hagnaði á ári. Til þess að gera það er þetta ein af þeim aðgerðum sem lagt er til að ráðist verði í. Það er mjög sérkennilegt að ætla að bæta hag ríkissjóðs með því að rýra hag sveitarfélaganna. Við vonumst til að ná lendingu í þessu því ríki og sveitarfélög eru saman með hagstjórnina í landinu og þessir tveir aðilar verða að dansa í takt.“ segir Aldís.

Hún gagnrýnir einnig aðferðafræðina. „Við erum í umfangsmiklum samskiptum sérstaklega varðandi fjármálin og það er undarlegt að þetta skuli ekki hafa verið tekið til alvarlegrar umræðu þar í staðinn fyrir að boða okkur á fund í vikunni og í rauninni tilkynna okkur að þetta væri orðinn hlutur.“ 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×