Frumvarpið var kynnt í gær og hefur valdið mikilli gremju í hópi bænda sem telja þetta frumvarp geta haft alvarlegar afleiðingar. Nái frumvarpið fram að ganga á vorþingi munu hömlur á innflutningi á hráu kjöti falla niður í byrjun sláturtíðar íslenskra lamba, þann 1. september næstkomandi.

Karl G. Kristinsson, prófessor og yfirlæknir við sýklafræðideild Landspítalans, hefur um nokkra hríð bent á þær hættur sem skapast af óheftum innflutningi á hráu kjöti til landsins. Hann telur þær mótvægisaðgerðir sem landbúnaðarráðherra ætlar að setja á laggirnar vera góðar. „Þetta nýja lagafrumvarp er hægt að sættast á með þeim fyrirvara að mótvægisaðgerðunum verði framfylgt. Í þeim eru mjög mikilvægar varnir,“ segir Karl.
Með frumvarpinu fær Matvælastofnun heimild til að annast framkvæmd sýnatöku hjá matvælafyrirtækjum. Einnig að annast eftirlit í formi skyndiskoðana og sýnatöku og hins vegar þegar rökstuddur grunur er um að afurðir séu heilsuspillandi eða óhæfar til manneldis.

Lilja Rafney Magnúsdóttir, formaður atvinnuveganefndar og einnig í meirihluta atvinnuveganefndar líkt og Halla Signý, segir frumvarpið eiga eftir að koma til kasta atvinnuveganefndar. „Ég skil vel að ráðherra þurfi að einhverju leyti að bregðast við dómnum sem féll í nóvember 2017 þar sem engin leið er til að halda í frystiskylduna. Það er verið að reyna að koma með mótvægisaðgerðir á móti sem skipta máli.“