Innlent

Kom til snarpra orða­skipta á milli hótel­eig­anda í Ár­múla og formanns Eflingar

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Árni Valur Sólonsson, eigandi City Park Hotel, og Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, ræða hér málin í anddyri hótelsins í hádeginu.
Árni Valur Sólonsson, eigandi City Park Hotel, og Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, ræða hér málin í anddyri hótelsins í hádeginu. vísir/vilhelm

Til snarpra orðaskipta kom nú um hádegisbil á milli Sólveigar Önnu Jónsdóttur, formanns Eflingar, og Árna Vals Sólonssonar, eiganda City Park Hotel í Ármúla í Reykjavík, vegna fyrirhugaðrar atkvæðagreiðslu um boðun verkfalls á meðal starfsmanna hótelsins sem eru í Eflingu.

Sólveig Anna lýsir því sem ótrúlegri senu þegar hún ásamt félögum sínum í Eflingu mætti á hótelið á sérstökum bíl þar sem félagsmönnum gefst tækifæri á að greiða atkvæði um boðun verkfalls starfsfólks sem starfar við þrif á hótelum og gistiheimilum.

Að sögn Sólveigar Önnu tók eigandi hótelsins á móti henni í anddyri þess og segir hún Árna Val hafa meinað starfsfólkinu að greiða atkvæði. Telur hún að um tólf starfsmenn hótelsins hafi ætlað sér að greiða atkvæði en ekkert varð af því.

„Eigandinn tók á móti okkur og sendi okkur skýr skilaboð um að við værum ekki velkomin,“ segir Sólveig Anna og bætir við að hóteleigandinn hafi sagt að starfsfólkið mætti ekki greiða atkvæði á vinnutíma.

Árni Valur, eigandi hótelsins, segir í samtali við Vísi að Efling hafi ekki rétt á því að koma á hótelið með þessum hætti enda sé verið að trufla starfsmenn við vinnu sína.

Þau hafi boðað komu sína á hótelið klukkan 12 en þá væru starfsmennirnir ekki í pásu. Ef þau myndu koma klukkan 14 væru starfsmennirnir hins vegar í pásu og ekki verið að trufla þá við vinnu sína.

Atkvæðagreiðslan fer ekki aðeins fram í fyrrnefndum bíl sem keyrir á milli vinnustaða heldur einnig á netinu. Árni Valur vísar því á bug að hann hafi bannað starfsfólki sínu að greiða atkvæði í dag heldur hafi hann þvert á móti undanfarna daga hvatt þau til þess að taka þátt í atkvæðagreiðslunni.

„Því ég veit það að vel flestir ef ekki allir af mínum starfsmönnum vilja ekki fara í verkfall. Við erum búin að ræða þetta og þau eru búin að vera í öngum sínum að tala við mig og spyrja þá „Verðum við að fara í verkfall?““


Tengdar fréttir

Segir áherslur félaganna einkennilegar

Ferðamálaráðherra hefur áhyggjur af stöðunni sem upp er komin í deilu fjögurra verkalýðsfélaga við SA. Það skjóti skökku við að aðilar virðist ekki vissir um hvert þrætueplið sé.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×