Innlent

Sjómannafélagið dæmt til hárra sektargreiðslna

Jakob Bjarnar skrifar
Heiðveig og lögaður hennar, Kolbrún Garðarsdóttir hrósuðu sigri í félagsdómi nú rétt í þessu.
Heiðveig og lögaður hennar, Kolbrún Garðarsdóttir hrósuðu sigri í félagsdómi nú rétt í þessu. visir/vilhelm
Nú rétt í þessu féll dómur í Félagsdómi í máli Heiðveigar Maríu Einarsdóttur á hendur Sjómannafélagi Íslands. Hún kærði félagið meðal annars fyrir ólögmætan brottrekstur og reglur sem kveða á um að ekki megi bjóða sig fram til trúnaðarstarfa innan félagsins án þess að hafa greitt félagsgjöld í þrjú ár.

„Þetta var fullt hús, fullur sigur,“ segir Heiðveig María í stuttu samtali við Vísi. Sjómannafélagið var dæmt til að greiða eina og hálfa milljón í sektargreiðslur vegna þess hvernig þeir stóðu að málum þeim sem sneru að framboði Heiðveigar Maríu. Hún hafi ætlað sér að bjóða sig fram til formanns félagsins en það endaði með því að hún var rekin úr félaginu. Vísir hefur fjallað ítarlega um málið eins og sjá má hér neðar, í tengdum fréttum.Hér getur að líta niðurstöðuna í dómi Félagsdóms, sem var fjölskipaður.
„Dómurinn er staðfesting á því að forysta stéttarfélaga getur ekki takmarkað réttindi félagsmanna til að gagnrýna forystuna né að bjóða sig fram til forystu í stéttarfélagi. Slíkar takmarkanir eru ólýðræðislegar og ólöglegar,“ segir Kolbrún Garðarsdóttir, lögmaður Heiðveigar Maríu, í samtali við Vísi.

Félagið hljóti að boða til nýrra kosninga

Hún segir að það hafi verið skýr ásetningur Sjómannafélags Íslands að fella úr gildi réttindi Heiðveigar með því að víkja henni úr félaginu og takmarka kjörgengi með lagabreytingu og það er tilefni til þess að sekta félagið fyrir slíka háttsemi.

Bergur Þorkelsson er sjálfskipaður formaður SÍ en hann hefur verið gjaldkeri félagsins.skjáskot kastljós
„Dómurinn tekur nokkuð sterkt til orða varðandi hátterni stjórnarmanna og trúnaðarmannaráðs og verður fordæmisgefandi til framtíðar hvað varðar réttinn til að vera í stéttarfélagi og að tjáningarfrelsi sé virt.“

Heiðveig María telur víst að síðasta stjórnarkjör, sem fram fór á aðalfundi sem haldinn var í desember á síðasta ári, þar sem Bergur Þorkelsson áður gjaldkeri félagsins var kjörinn formaður, sé ógilt. En, hún gerir sér ekki alveg grein fyrir því hver næstu skref verða. Það sé í raun félagsins að bregðast við þeirri stöðu sem nú er upp komin.

Kolbrún segir að það hljóti að vera, að stjórnarkjörið sé ómark. „Félagið hlýtur að boða til nýrra kosninga í ljósi þessarar stöðu.“


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.