Innlent

Formaður samgöngunefndar segir samgönguráðherra verða að fara að gera upp hug sinn

Heimir Már Pétursson skrifar
Formaður umhverfis- og samgöngunefndar segir samgönguráðherra verða að fara gera upp við sig hvaða leiðir eigi að fara í nauðsynlegum stórframkvæmdum í vegakerfinu. En ráðherrann hefur sagt að ekki sé víst að lögð verði á veggjöld og ef til vill væri skynsamlegra að nota arðgreiðslur Landsvirkjunar til að fjármagna framkvæmdirnar.

Ummæli samgönguráðherra í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni um helgina um að hugsanlega megi fresta veggjöldum um fjögur til fimm ár og nýta þess í stað arðgreiðslur frá Landsvirkjun til stórra verkefna í vegamálum koma nokkuð á óvart í ljósi nýsamþykktra breytingatillagna meirihluta Alþingis. Þar er ráðherra falið að útfæra veggjöld fyrir stórar framkvæmdir á stofnleiðum í kringum höfuðborgarsvæðið og jafnvel víðar og leggja fram frumvarp þar að lútandi á yfirstandandi vorþingi. Ráðherra segir aðeins um heimild að ræða til að skoða leiðir og engin ákvörðun hafi verið tekin.

Jón Gunnarsson formaður umhverfis- og samgöngunefndar hefur verið aðaltalsmaður veggjalda og sagt að þau gætu tvöfaldað það fjármagn sem færi í uppbyggingu vegakerfisins. Hann og ráðherrann séu sammála um að gríðarlega mikilvægt sé að fara í stórar framkvæmdir í samgöngumálum.

„Það eru svo sem ýmsar leiðir til þess. Hinn augljósi kostur við þá leið að fara í veggjöld er að þá fáum við og leiðum inn þátttöku erlendra ferðamanna sem munu borga stóran hluta,” segir Jón.

Umhverfis- og samgöngunefnd hafi unnið þessi mál í nánu samstarfi við samgönguráðuneytið og ráðherrann.

Jón segist því ekki eiga von á öðru en samgönguráðherra leggi fram frumvarp um málið á yfirstandandi þingi enda unnið út frá því á Alþingi. Þá sé gengið út frá því innan Sjálfstæðisflokksins að gjaldtakan verði ekki íþyngjandi og önnur gjöld lækki á móti.

„Það er auðvitað mjög mikilvægt að ráðherrann geri upp sinn hug í þessu máli. Að við séum að vinna hér eftir einhverri stefnu til að vinna málunum farveg. Það gerist ekki ef við förum út og suður í þessum málum.”

Arðgreiðslur frá Landsvirkjun og þjóðarsjóðshugmyndin, er hún ekki enn á stefnu Sjálfstæðisflokksins?

„Hún hefur bara verið á stefnu ríkisstjórnarinnar,” segir Jón Gunnarsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×