Innlent

Formaður samgöngunefndar segir samgönguráðherra verða að fara að gera upp hug sinn

Heimir Már Pétursson skrifar

Formaður umhverfis- og samgöngunefndar segir samgönguráðherra verða að fara gera upp við sig hvaða leiðir eigi að fara í nauðsynlegum stórframkvæmdum í vegakerfinu. En ráðherrann hefur sagt að ekki sé víst að lögð verði á veggjöld og ef til vill væri skynsamlegra að nota arðgreiðslur Landsvirkjunar til að fjármagna framkvæmdirnar.

Ummæli samgönguráðherra í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni um helgina um að hugsanlega megi fresta veggjöldum um fjögur til fimm ár og nýta þess í stað arðgreiðslur frá Landsvirkjun til stórra verkefna í vegamálum koma nokkuð á óvart í ljósi nýsamþykktra breytingatillagna meirihluta Alþingis. Þar er ráðherra falið að útfæra veggjöld fyrir stórar framkvæmdir á stofnleiðum í kringum höfuðborgarsvæðið og jafnvel víðar og leggja fram frumvarp þar að lútandi á yfirstandandi vorþingi. Ráðherra segir aðeins um heimild að ræða til að skoða leiðir og engin ákvörðun hafi verið tekin.

Jón Gunnarsson formaður umhverfis- og samgöngunefndar hefur verið aðaltalsmaður veggjalda og sagt að þau gætu tvöfaldað það fjármagn sem færi í uppbyggingu vegakerfisins. Hann og ráðherrann séu sammála um að gríðarlega mikilvægt sé að fara í stórar framkvæmdir í samgöngumálum.

„Það eru svo sem ýmsar leiðir til þess. Hinn augljósi kostur við þá leið að fara í veggjöld er að þá fáum við og leiðum inn þátttöku erlendra ferðamanna sem munu borga stóran hluta,” segir Jón.

Umhverfis- og samgöngunefnd hafi unnið þessi mál í nánu samstarfi við samgönguráðuneytið og ráðherrann.

Jón segist því ekki eiga von á öðru en samgönguráðherra leggi fram frumvarp um málið á yfirstandandi þingi enda unnið út frá því á Alþingi. Þá sé gengið út frá því innan Sjálfstæðisflokksins að gjaldtakan verði ekki íþyngjandi og önnur gjöld lækki á móti.

„Það er auðvitað mjög mikilvægt að ráðherrann geri upp sinn hug í þessu máli. Að við séum að vinna hér eftir einhverri stefnu til að vinna málunum farveg. Það gerist ekki ef við förum út og suður í þessum málum.”

Arðgreiðslur frá Landsvirkjun og þjóðarsjóðshugmyndin, er hún ekki enn á stefnu Sjálfstæðisflokksins?

„Hún hefur bara verið á stefnu ríkisstjórnarinnar,” segir Jón Gunnarsson.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.