Erlent

Makedónar færast nær NATO

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Nikola Dimitrov og Jens Stoltenberg á sameiginlegum blaðamannafundi í gær.
Nikola Dimitrov og Jens Stoltenberg á sameiginlegum blaðamannafundi í gær. Nordicphotos/AFP
Atlantshafsbandalagið (NATO) undirritaði í gær samkomulag við Makedóníu um aðild ríkisins að varnarbandalaginu. Þetta þótti óhugsandi fyrir fáeinum árum vegna afstöðu Grikkja. Eftir að Makedónar og Grikkir sömdu um breytingu á nafni fyrrnefnda ríkisins og að Grikkir myndu þá ekki beita neitunarvaldinu gegn aðild Makedóna að NATO og ESB er þetta orðin raunin.

Undirritunin færir Makedóna nær því að breyta nafni ríkisins í Lýðveldið Norður-Makedónía. Ríki Atlantshafsbandalagsins eiga eftir að fullgilda sáttmálann. Nikola Dimitrov, utanríkisráðherra Makedóna, sagði að í kjölfar undirritunar taki aðeins fáeina daga að breyta nafninu.

„Þessi niðurstaða var ekki óhjákvæmileg. Hún var ekki einu sinni líkleg. Ég tek ofan fyrir leiðtogum beggja hliða sem sýndu fram á að hið ómögulega er í raun mögulegt […] Á næstu dögum munum við útkljá síðustu deilumálin sem við eigum við nágranna okkar,“ sagði Dimitrov.

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, sagði daginn sögulegan. Heimasíða Nató greindi frá því að Stoltenberg óskaði stjórnvöldum í Grikklandi og Makedóníu til hamingju og hrósaði þeim fyrir hugrekkið sem stjórnirnar hafi sýnt.

Val Stoltenbergs á orðinu „hugrekki“ er skiljanlegt enda markar samkomulagið endalok áratuga­langrar deilu Grikkja og Makedóna. Frá því Makedónar fengu sjálfstæði frá Júgóslavíu 1991 og völdu þetta nafn á ríki sitt hafa Grikkir verið ósáttir.

Óánægja Grikkja er tvíþætt. Þeir óttast að með nafnið að vopni geri Makedónar tilkall til grísks landsvæðis, það er að segja gríska héraðsins Makedóníu. Hins vegar þykir þeim nafnið ótækt í sögulegu samhengi. Hið forna konungsríki Makedónía, sem Alexander mikli stýrði til að mynda, var að mestu leyti innan grísku Makedóníu og er álitið hluti af menningararfi Grikkja.

Þótt stjórnvöld beggja ríkja hafi nú samið um nafnbreytingu og um að hvorugt ríkið geri tilkall til landsvæðis hins er stór hluti grísks almennings ósáttur, já og gríska þingsins. Skoðanakannanir benda til að meirihluti Grikkja sé á móti samkomulaginu. Sextíu prósent samkvæmt mælingu Pulce RC í janúar. Kyriakos Mitsotakis, formaður stjórnarandstöðuflokksins Nýs lýðræðis, hefur til að mynda gagnrýnt að Grikkir viðurkenni makedónska tungu með gerð samkomulagsins.

Og Makedónar eru margir ósáttir sömuleiðis. Vilja ekki beygja sig undir Grikki og breyta nafni ríkisins. Ljóst er þó að ávinningurinn er mikill að mati makedónskra stjórnvalda. Fá að öllum líkindum langþráða aðild að bæði NATO og ESB.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×