Innlent

Fram­kvæmda­sjóður aldraðra: Hæstu fram­lögin til Sól­vangs og upp­byggingar við Sléttu­veg

Atli Ísleifsson skrifar
Sólvangur í Hafnarfirði.
Sólvangur í Hafnarfirði. Sólvangur
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur úthlutað 495 milljónum króna úr Framkvæmdajóði aldraðra til uppbyggingar í öldrunarþjónustu.

Í frétt á vef heilbrigðisráðuneytisins segir að hæstu framlögin renni til endurgerðar hjúkrunarrýma á gamla Sólvangi í Hafnarfirði, um 240 milljónir, og til uppbyggingar þjónustumiðstöðvar við Sléttuveg í Reykjavík, um 163 milljónum.

„Í Hafnarfirði styttist í að framkvæmdum ljúki við byggingu nýs hjúkrunarheimilis við Sólvang með hjúkrunaríbúðum fyrir 60 íbúa sem eru nær jafnmörg rými og á gamla Sólvangi. Á liðnu ári leituðu forsvarsmenn Hafnarfjarðar til heilbrigðisráðherra og lýstu áhuga á því að nýta gamla húsnæðið til að fjölga hjúkrunarrýmum. Þörfin væri brýn, fjölgunin myndi styrkja rekstrarhagkvæmni hjúkrunarheimilis við Sólvang og nauðsynlegar endurbætur sem gera þarf á gamla húsnæðinu útheimti minna fjármagn en ef um nýbyggingu væri að ræða. Heilbrigðisráðherra féllst á erindið sem gerir kleift að fjölga hjúkrunarrýmum í bæjarfélaginu um 33,“ segir í tilkynningunni.

Við Sléttuveg í Reykjavík rís nú nýtt hjúkrunarheimili fyrir um hundrað íbúa sem áformað er að taka í notkun haustið 2019. „Hrafnista sem mun reka heimilið sótti um framlag úr Framkvæmdasjóði aldraðra vegna byggingar þjónustumiðstöðvar sem verður tengd hjúkrunarheimilinu,“ segir í tilkynningunni.

Sjá má yfirlit yfir framlög að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×