Innlent

Of mikið heitt vatn til stórnotanda í Ölfusi

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Vonast er til þess að meira heitt vatn fáist úr holu í Rangárveitum.
Vonast er til þess að meira heitt vatn fáist úr holu í Rangárveitum. veitur
Veitur biðja nú alla viðskiptavini um að fara sparlega með heitt vatn þar sem farið er að bera á skorti í yfirstandandi kuldakasti. Eiríkur Hjálmarsson, upplýsingafulltrúi hjá Veitum og Orkuveitunni, segir stöðuna erfiðasta á þremur svæðum á starfssvæði Veitna. Það sé af mismunandi ástæðum. 

„Austur í Rangárveitum erum við að vonast til þess að það takist að glæða holu sem þar var boruð til þess að ná í meira heitt vatn. Í Ölfusi er svolítið sérstök staða vegna þess að þar er einn stórnotandi sem hefur verið að nota umfram samninga. Síðan staðan á höfuðborgarsvæðinu þar sem þetta óvenjulega langa kuldakast kemur einmitt áður en næsta skref í stækkun veitunnar er stigið,“ segir Eiríkur.

Að sögn Eiríks bitnar ástandið á stórnotendum. „Þeir eru á afsláttum en á móti eru skerðingarheimildir,“ útskýrir hann. Þannig fái þessar stofnanir og fyrirtæki minna af heitu vatni þegar skortur er. Þetta á meðal annars við um sundlaugar. „Það er þekktasti reksturinn sem er á þessum afsláttar- og skerðingarkjörum. Þessu hefur þegar verið beitt á Hellu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×