Innlent

„Ein leiðindabeyglan“ frá með úrskurði Landsréttar

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Bára Halldórsdóttir, uppljóstrarinn á Klaustur Bar.
Bára Halldórsdóttir, uppljóstrarinn á Klaustur Bar. Vísir/Arnar

Bára Halldórsdóttir uppljóstrarinn á Klausturbar fagnar úrskurði Landsréttar í máli hóps þingmanna Miðflokksins gegn henni. Með niðurstöðunni sé „ein leiðindabeyglan“ frá. Bára kveðst nú bíða úrskurðar Persónuverndar í máli þingmannanna.

Landsréttur staðfesti í gær úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur er varðar fyrirhugaða málsókn fjögurra þingmanna Miðflokksins, þeirra Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, Bergþórs Ólasonar, Gunnars Braga Sveinssonar og Önnu Kolbrúnar Árnadóttur, gegn Báru.

Ástæða málsóknarinnar er hljóðritun Báru á samskiptum þingmannanna á barnum Klaustri í nóvember síðastliðnum. Þingmennirnir fóru fram á að ráðist yrði í gagnaöflun og vitnaleiðslur fyrir héraðsdómi. Héraðsdómur hafnaði þeirri kröfu en úrskurðurinn var kærður til Landsréttar. Einnig hafa þingmennirnir leitað til Persónuverndar vegna upptökunnar.

Boltinn hjá Persónuvernd

Bára segir í samtali við Vísi að hún fagni því að enn einn áfanginn sé í höfn í málinu.

„Þetta er bara fínt, þá er ég allavega búin að fá svar á þessu „leveli“. Þá getur maður farið að pæla í því hvað Persónuvernd finnst um málið. Þeir ætluðu að kíkja á þetta beint á eftir úrskurðinum,“ segir Bára.

„Þetta er allt saman búið að vera rosalega hægt síðan héraðsdómur kvað upp úrskurðinn. En þetta er svona ein leiðindabeyglan farin til hliðar.“

Bára segist ekki viss hvað taki nú við en málið sé í höndum Miðflokksmanna og lögfræðings þeirra. Nú sé undir þeim komið hvort málinu verði skotið til Hæstaréttar. Aðspurð sagðist Bára ekkert hafa heyrt í þingmönnunum fjórum síðan málið hófst.

„Þau hafa ekkert við mig að segja nema í gegnum lögfræðing og fjölmiðla.“

Reimar Pétursson lögmaður þingmanna Miðflokksins vildi ekki tjá sig um það hvort skjólstæðingar sínir hygðust skjóta úrskurði Landsréttar til Hæstaréttar. Þá vildi hann ekkert gefa upp um næstu skref málsins.


Tengdar fréttir

„Þar sátu litlir karlar sem hötuðust út í konur“

„Ólaf­ur Ísleifs­son og Karl Gauti Hjalta­son áttu aðeins eitt er­indi á Klaust­ur Bar þetta kvöld og vissu mætavel hvað til stóð. Þeir voru að svíkja flokk­inn sem kom þeim á þing,“ skrif­ar Inga Sæ­land, formaður Flokks fólks­ins í aðsendri grein í Morg­un­blaðinu í dag.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.