Innlent

Sáu eldinn hlaupa upp eftir klæðningunni er þeir renndu í hlað

Jóhann K. Jóhannsson og Tryggvi Páll Tryggvason skrifa
Frá vettvangi.
Frá vettvangi. Vísir/Jói K.
Slökkviliðið telur sig vera búið að slökkva eldinn sem kom upp í fjölbýlishúsi í Eddufelli í Breiðholti fyrr í kvöld. Tilkynnt var um lítinn eld í fyrstu en fljótlega varð ljóst að hafa þyrfti hraðar hendur við slökkvistarf.

„Þegar við komum á staðinn þá er lítill eldur á fyrstu og annarri hæðinni en þegar við rennum í hlað þá sjáum við hann hlaupa á bak við klæðninguna, upp eftir öllu,“ segir Jóhann Örn Ásgeirsson, aðstoðarvarðstjóri hjá Slökkviliðinu höfuðborgarsvæðinu í samtali við fréttastofu.

Fjölbýlishúsið, sem er á fjórum hæðum, var rýmt í hvelli en 25 íbúðir eru í húsinu að sögn íbúa. Rauði krossinn sér um að aðstoða íbúana sem hafast við í strætisvagni á meðan á slökkvistarfi stendur.

Þrátt fyrir að slökkviliðið telji að búið sé að slökkva eldinn er nú verið að ganga úr skugga um að enginn glóð sé eftir bak við klæðningunna en Jóhann segir að það geti reynst tímafrekt.

„Þetta er þó nokkuð flókið verkefni vegna þess að húsið er klætt með flísum. Við þurfum að rífa utan af húsinu til að vera viss um að það sé enginn eldur í timburklæðningunni á bak við.“

Uppfært klukkan 23.30.

Slökkvistarfi lauk á tólfa tímanum. Gekk það greiðlega að sögn varðstjóra hjá slökkviliðinu.


Tengdar fréttir

Eldur í Eddufelli

Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu hefur verið kallað út vegna elds á svölum í Eddufelli 8 í Breiðholti




Fleiri fréttir

Sjá meira


×