Innlent

Gjaldtaka hafin í Vaðlaheiðargöngum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Framkvæmdir við göngin tóku á sjötta ár.
Framkvæmdir við göngin tóku á sjötta ár. Vísir/Tryggvi
Gjaldtaka um nýopnuð Vaðlaheiðargöng hefst í dag en ökumenn hafa notið þess í tæpar tvær vikur að aka gjaldfrjálst um göngin. Stök ferð á fólksbíl kostar 1500 krónur en 6000 krónur fyrir stærri bíla.

Gjöldin eru greidd rafrænt en mælt er með því að skrá bílinn á veggjald.is og þá skuldfærist af korti í hvert skipti sem ekið er um göngin. Skráðum notendum bjóðast afsláttarkjör. Því fleiri ferðir sem eru keyptar greiðist lægri upphæð.

Tíu ferðir á fólksbíl kosta þannig 12.500 krónur eða 1250 krónur hver ferð. Hægt er að kaupa 100 ferðir á 70 þúsund krónur sem svarar til 700 krónu gjalds á ferð.

Þeir sem eru sjaldan á ferð um göngin geta líka keypt staka ferð á veggjald.is eða í símaappi innan við þremur tímum áður en ekið er í gegn eða þremur tímum eftir. Ef ekið er í gegnum göngin án greiðslu er gjaldið innheimt af eiganda eða umráðamanni ökutækisins, svo sem bílaleigu sem þannig rukkar erlenda ferðamenn.

Á Facebook-síðu Vaðlaheiðarganga eru Húsvíkingar minnt á það að Ljótu hálfvitarnir eru að spila á Græna hattinum á Akureyri þann 4. janúar. Er þar vísað til atriðis í Áramótaskaupi Ríkissjónvarpsins þar sem starfsmaður fullra efasemda um göngin vegna mikils kostnaðar var minntur á að hljómsveitin spilaði reglulega á Akureyri.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×