Innlent

Hætta við skerðingu tollkvóta á kjöti

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
Jákvætt fyrir neytendur segir framkvæmdastjóri FA.
Jákvætt fyrir neytendur segir framkvæmdastjóri FA. Fréttablaðið/Vilhelm
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur hætt við áform um að umreikna tollfrjálsa innflutningskvóta fyrir kjötvörur frá Evrópusambandinu yfir í ígildi kjöts með beini. Þetta kemur fram í svari ráðuneytisins við erindi Félags atvinnurekenda (FA). Félagið segir að slíkur umreikningur hefði skert tollfrjálsan innflutning um allt að þriðjung.

Á vef ráðuneytisins í maí 2018 kom fram að ein af mótvægis­aðgerðum vegna tollasamnings Íslands við ESB, sem þegar væri kominn til framkvæmda, væri slíkur umreikningur. „Unnið er að því að koma þessu til framkvæmda,“ sagði á vef ráðuneytisins.

Félag atvinnurekanda gagnrýndi þessar hugmyndir. Í svari ráðuneytisins við fyrirspurn FA segir að framkvæmdinni við innflutning kindakjöts hafi verið breytt í ESB og sé nú miðað við nettóvigt í öllum tilvikum. „Þar af leiðandi gerir ráðuneytið ekki ráð fyrir því að svo stöddu að framkvæmdinni verði breytt frá því sem verið hefur hvað varðar ofangreint.“

Í tilkynningu frá FA segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri félagsins, það jákvætt að ESB hafi tekið af allan vafa um framkvæmd samningsins. „Og þá standa engin rök til þess að breyta framkvæmdinni á Íslandi. Umreikningurinn hefði skert verulega hag bæði neytenda og innflytjenda. Nú blasir hins vegar við að það aukna framboð á innfluttu kjöti á hagstæðu verði, sem samningurinn gaf fyrirheit um, mun ganga eftir,“ segir Ólafur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×