Innlent

Jólaútborgun Reykjavíkurborgar „barn síns tíma“ og lögð af

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Yfirvinnugreiðslur í desember og eftirágreidd desemberlaun hjá Reykjavíkurborg hafa undanfarin ár verið borguð út 2-4 dögum fyrir jól.
Yfirvinnugreiðslur í desember og eftirágreidd desemberlaun hjá Reykjavíkurborg hafa undanfarin ár verið borguð út 2-4 dögum fyrir jól. Vísir/vilhelm
Starfsmenn Reykjavíkurborgar fengu laun fyrir desembermánuð 2018 greidd 1. janúar en ekki fyrir jól eins og tíðkast hefur lengi hjá borginni. Reykjavíkurborg segir gamla fyrirkomulagið hafa sætt nokkurri gagnrýni enda „barn síns tíma“.

Bjarni Brynjólfsson upplýsingastjóri Reykjavíkurborgar segir í skriflegu svari við fyrirspurn Vísis að útborgun desemberlauna tveimur til fjórum dögum fyrir jól hafi í raun verið „arfleið frá þeim tíma þegar laun voru greidd út í reiðufé.“

Hann vísar í tilkynningu um breytinguna frá launadeild borgarinnar sem gerð var aðgengileg á Workplace-svæði starfsmanna og einnig send öllum stjórnendum í tölvupósti. Þeir hafi jafnframt verið hvattir til að kynna breytinguna fyrir starfsfólki sínu.

Í tilkynningunni segir að gamla fyrirkomulagið hafi sætt nokkurri gagnrýni, einkum vegna þess hversu langt hafi liðið milli útborgunardaganna, annars vegar í desember og hins vegar í febrúar.

„Nokkuð lengi hefur tíðkast hjá Reykjavíkurborg að yfirvinnugreiðslur í desember og eftirágreidd desemberlaun hafa verið borguð út 2-4 dögum fyrir jól. Hefur þetta fyrirkomulag sætt nokkurri gagnrýni, ekki hvað síst þar sem of langt bil verður til næsta útborgunardags sem er 1. febrúar,“ segir í tilkynningu launadeildar.

„Fyrirhugað er að framvegis fari framangreind launaútborgun fram um mánaðamót. Það er von kjaradeildar Reykjavíkurborgar að sú tilfærsla verði sem flestum til þægindaauka.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×