Hrannar Páll Róbertsson, 31 árs karlmaður, hefur verið dæmdur til eins árs fangelsisvistar fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás í eldhúsaðstöðu fanga á Litla-Hrauni í apríl í fyrra.
Dómur var kveðinn upp í Héraðsdómi Suðurlands á fimmtudaginn en Hrannar játaði brot sitt. Í ákæru var hann sakaður um að hafa slegið karlmann með steikarpönnu í höfuðið.
Við höggið brotnaði skaftið af pönnunni og í beinu framhaldið af því sló Hannar manninn þrisvar í höfuðið með skafti steikarpönnunnar. Hlaut maðurinn skurð á hægra gagnaugasvæði og bólgu á kjálka.
Hrannar á að baki langan brotaferil frá því á táningsaldri. Þá hlaut hann fjórum sinnum skilorðsbundna dóma fyrir auðgunarbrot og önnur brot er vörðuðu fjárréttindi.
Á árunum 2009 til 2015 var hann tíu sinnum fundinn sekur um meðal annars ofbeldisbrot, auðgunarbrot og önnur brot er varða fjárréttindi. Sætti hann vegna þeirra fangelsi samanlagt í níu ár og fjóra mánuði.
Þyngsti dómurinn var í nóvember 2014 þegar Hrannar var dæmdur í fimm og hálfs árs fangelsi meðal annars fyrir tilraun til manndráps.
Ár bak við lás og slá fyrir steikarpönnuárás á Hrauninu
Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
