Innlent

Kona sem lést á Borgarfjarðarbraut var kínverskur ferðamaður

Kjartan Kjartansson skrifar
Sú látna var á sextugsaldri og var á ferð með dóttur sinni og tengdasyni.
Sú látna var á sextugsaldri og var á ferð með dóttur sinni og tengdasyni. Vísir

Kínversk kona sem var á ferðalagi með dóttur sinni og tengdasyni lést þegar jepplingur þeirra lenti framan á smábíl sem kom úr gagnstæðri átt á Borgarfjarðarbraut í síðustu viku. Ung íslensk kona sem var í hinum bílnum slasaðist töluvert en er sögð á batavegi.



Slysið varð á Borgarfjarðarbraut við Grjóteyrarhæð skömmu fyrir klukkan ellefu sunnudaginn 15. september. Jónas H. Ottósson, rannsóknarlögreglumaður hjá lögreglunni á Vesturlandi, segir að jepplingnum hafi verið ekið norður veginn en fólksbílnum í gagnstæða átt.



Orsakir slyssins eru ekki fyllilega ljósar en karlmaður sem ók jepplingnum missti stjórn á honum með þeim afleiðingum að hann lenti framan á fólksbílnum. Veður var vont á slysstað en ekki liggur fyrir hvort það hafi átt þátt í hvernig fór.



Tengdamóðir ökumannsins á sextugsaldri sem var farþegi í aftursæti lést af völdum áverka sem hún hlaut í árekstrinum. Hún var í bílbelti. Jónas segir algengt að erlendir ferðamenn noti bílbelti rangt og rannsókn beinist meðal annars að því hvort svo hafi verið í þessu tilfelli.



Ökumaður fólksbílsins, ung íslensk kona, hlaut meðal annars beinbrot og áverka í slysinu en hún er nú útskrifuð af sjúkrahúsi. Jónas segir að læknar telji að hún muni ná sér af meiðslum sínum.


Tengdar fréttir

Alvarlegt umferðarslys varð á Borgarfjarðarbraut

Í samtali við Vísi staðfesti Gísli Björnsson, yfirmaður sjúkraflutninga hjá Heilbrigðisstofnun Vesturlands, að um mjög harðan árekstur hafi verið að ræða þar sem tveir bílar keyrðu beint framan á hvorn annan.

Banaslys á Borgarfjarðarbraut

Farþegi annarrar bifreiðarinnar sem lenti í hörðum árekstri á Borgarfjarðarbraut í gær er látinn.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×