Í ár hefur mönnun gengið nokkuð vel á bæði grunn- og leikskólastigi í skólum Reykjavíkurborgar samkvæmt síðustu samantekt skóla- og frístundasviðs sem er frá 19. September. Þá átti eftir að ráða í um 38 stöðugildi á leikskólum, 22 í grunnskólum og um 42 á frístundaheimilum. Þá fjölgar stöðugildum um 44 á milli ára þar sem starfsmannaþörf jókst vegna fjölgunar leikskólarýma og nemenda.
„Þegar þessar tölur voru teknar saman þá vantaði um 130 stöðugildi á skóla- og frístundasvið. Sem meðal annars hefur verið að valda því að það hefur þurft að senda börn heim af leikskóla og ekki getað tekið inn öll börn sem var búið að bjóða pláss,“ segir Valgerður Sigurðardóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins sem situr í skóla- og frístundaráði.

Hún telji að bæta þurfi aðstöðu starfsfólksins og auka fjármagn í málaflokkinn. „Ég held að við eigum bara fullt af peningum. Við höfum verið að gera alls konar verkefni hérna sem er ekki skilda, ekki partur af grunnþjónustunni okkar. Og við eigum að einbeita okkur að grunnþjónustunni fyrst og fremst. Við þurfum ekki að draga úr neinum öðrum grunnþjónustuverkefnum, alls ekki. Við eigum að bæta í þar,“ segir Valgerður.