Lífið

„Hér hefur mér verið tekið með opnum örmum“

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Elma Stefanía Ágústsdóttir hefur þurft að kljást við margar áskoranir í starfi sínu hjá hinu virta Burgtheater í Vín. Hún flutti ásamt eiginmanni og börnum til Þýskalands árið 2018.
Elma Stefanía Ágústsdóttir hefur þurft að kljást við margar áskoranir í starfi sínu hjá hinu virta Burgtheater í Vín. Hún flutti ásamt eiginmanni og börnum til Þýskalands árið 2018. Mynd/Íris Dögg Einarsdóttir

Elma Stefanía Ágústsdóttir leikur í vetur í fjórum sýningum í hinu virta Burgtheater í Vín þar sem hún hefur fengið góðar móttökur. Leikkonan býr þar ásamt eiginmanni sínum Mikael Torfasyni rithöfundi og börnum. Fjölskyldan blómstrar í borginni og segir Elma Stefanía að það hafi verið lærdómsríkt að þurfa að leika á öðru tungumáli og að það gefið henni nýja trú á sjálfri sér.

„Sýningarnar eru Die Edda eftir Mikael Torfason og Þorleif Örn Arnarsson, Hver er hræddur við Virginiu Woolf eftir Edward Albee, Dies Irae eftir Kay Voges og Alexander Kerlin og svo Pétur Gaut eftir þá Þorleif Örn og Mikael en verkið byggir á upprunalegu verki Henrik Ibsen,“ segir Elma Stefanía um verkin fjögur.

Hún útskrifaðist sem leikkona frá Listaháskóla Íslands árið 2013 og hefur þá hlotið fjölda tilnefninga til Grímunnar og menningarverðlauna. Eftir útskrift byrjaði Elma Stefanía strax að starfa fyrir Þjóðleikhúsið þar sem hún fékk mörg stór hlutverk á meðan Tinna Gunnlaugsdóttir var þar leikhússtjóri.  

Svo færði hún sig yfir í Borgarleikhúsið og lék þar meðal annars í Hver er hræddur við Virginíu Woolf. Í dag leikur hún einmitt í því leikriti Edward Albee í Burgtheater.

„Okkur fjölskyldunni langaði að breyta til og ég sá tækifæri í leiklistinni úti og ákvað að stökkva á það,“ segir Elma Stefanía um flutningana til Þýskalands.

„Þorleifur Örn Arnarsson leikstjóri hafði lengi rætt þetta við mig, að ég ætti að reyna fyrir mér í Þýskalandi. Hann nefndi þetta fyrst meðan ég var enn að læra leiklist í Listaháskóla Íslands. Vorið 2018 fannst mér ég tilbúin í þetta ævintýri og við fluttum fyrst til Berlínar þar sem ég lærði þýsku og undirbjó mig fyrir atvinnuviðtöl hérna úti.“

Rétt fyrir frumsýningu á Die Edda í Burgtheater. Elma Stefanía ásamt manni sínum, Mikael Torfasyni rithöfundi.Úr einkasafni

Viss um að hún yrði fræg

Elma Stefanía vissi mjög snemma að hún ætlaði að verða leikkona. Móðir hennar vissi það þó ennþá fyrr, eða í sjö ára afmæli Elmu Stefaníu.

„Hún klæddi sig upp eins og drottning – í kjól af mér, sem hafði nota bene verið keyptur í Ameríku og var úr miklu teygju efni – í síðkjól. Svo fékk hún risastóra eyrnalokka og við eyddum miklum tíma í að ná hárinu rétt. Og ég man að ég hugsaði með mér að ég þyrfti að eiga mynd af þessu því hún ætti örugglega eftir að verða fræg leikkona,“ segir Gunnhildur Edda Kristjánsdóttir móðir Elmu um þetta augnablik.

„Ég hef aldrei efast um hennar hæfileika. Mér hefur stundum fundist pínu skrítið að ég er aldrei einu sinni stressuð fyrir hennar hönd. Það hvarflar ekki að mér að hún klikki á texta eða muni ekki plumma sig. Enda er Elma alltaf full sjálfstraust og hefur óbilandi trú á sjálfri sér,” bætir Gunnhildur Edda við.

Gunnhildur Edda Kristjánsdóttir, móðir Elmu, er tíður gestur í Vín og var sérleg aðstoðarkona Ídu á setti Hvíts, hvíts dags í fyrra. Jóel Torfi og Ísold una sér vel í Vín en Jóel kemur eins oft og hann getur frá Íslandi en Ísold er þegar byrjuð í menntaskóla.Myndir/Úr einkasafni

Móðurhlutverkið breytti öllu

Elma Stefanía hefur mikla ástríðu fyrir leikhúsinu og starfinu sínu. Þegar hún er spurð hvað sé skemmtilegast við starfið svarar hún:

„Þegar kvöldið er gott, þegar sýningin gengur upp, þegar allir hitta á réttu tónanna. Það er erfitt að lýsa þeirri tilfinningu sem kemur yfir mann þegar allt gengur upp. Kannski eins og að skora mark í fótbolta eða hitta hina fullkomnu körfu.“ 

Af þeim hlutverkum sem Elma Stefanía hefur nú þegar leikið, er Ásta Sóllilja í mestu uppáhaldi. „Mér þykir svo vænt um hana,“ útskýrir Elma Stefanía. Hún lék Ástu Sóllilju í Sjálfstæðu fólki í Þjóðleikhúsinu í leikstjórn Þorleifs Arnar Arnarssonar. Hún var tilnefnd til Menningarverðlauna DV fyrir hlutverkið.

Hún segir að móðurhlutverkið hafi strax breytt sér mjög mikið til hins betra og haft áhrif á hennar feril líka.  

„Það breytti öllu. Ísold mín fæddist fyrir tíu árum, árið 2009, og árið eftir komst ég inn í leiklistardeildina í Listaháskólanum. Það að eignast barn ung gerði mig agaða og ég lærði að forgangsraða lífi mínu þannig að ég gæti átt feril og líka notið þess að vera heimakær fjölskyldumanneskja.“

Ásta Sóllilja í Sjálfstæðu fólki er eftirlætishlutverk Elmu Stefaníu. Þorleifur Örn leikstýrði sýningunni sem var leikin í Þjóðleikhúsinu.Aðsend mynd

Langt og strangt ferli

Fjölskyldan flutti til Berlínar í júlí 2018 og svo til Vínar í júní 2019 og stefna á að vera þar áfram. 

„Við erum með Ídu og Ísold og svo kemur Jóel Torfi eins oft og hann getur til okkar. Og amman auðvitað, hún mamma mín. Hún vill sínar ömmuhelgar í Vín,“ segir Elma Stefanía. Hún hafði aðeins verið búsett í nokkra mánuði í Þýskalandi, þegar hún fékk ráðningarsamning við Burgtheater, sem verður að teljast ótrúlegt afrek.

„Þetta var langt og strangt ferli, fundir með leikhússtjóranum Martin Kusej og loks prufa þar sem ég lék Noru úr Dúkkuheimili Ibsens. Prufan var í leikhúsinu í Munchen og gekk mjög vel. Eftir hana skrifaði ég undir ráðningarsamning og verð hér næstu árin,“ segir Elma Stefanía.

Fjölskyldan býr í níunda hverfi í Vínarborg og Elma er fimm mínútur að labba í leikhúsið. Burgtheater er örugglega stærsta og virtasta leikhús hins þýskumælandi leikhúsheims. Þar eru bestu leikarar í Þýskalandi og Austurríki sem og Evrópu allri.  

 

 
 
 
View this post on Instagram

A post shared by Elma Stefania Agustsdottir (@elmastefania) on Jul 14, 2019 at 5:04am PDT

 

Alvöru stjörnur eru auðmjúkar

Elma Stefanía segir að á þessum tíma í Burgtheater hafi hún lært mikið á stuttum tíma, þá sérstaklega í þýsku.

„Ég er með sérstakan þýskukennara hér í leikhúsinu og það eru ótrúleg forréttindi. Hún hefur hjálpað mér mikið að takast á við þetta verkefni að leika á tungumáli sem er ekki móðurmál mitt. Svo hef ég öðlast nýja trú á sjálfri mér. Fyrir rúmu ári byrjaði ég að læra þetta tungumál af einhverri alvöru þótt ég hafi búið að menntaskólaþýskunni úr Kvennó.“ 

Henni var strax tekið mjög vel í leikhúsinu. „Ég hafði heyrt fyrir fram að þetta væri erfiður vinnustaður með mikið af stjörnum og stórum egóum en það sem ég hef komist að er að hér vinna bæði ótrúlega góðir leikarar og góðar manneskjur. Sem sýnir og sannar það að til að vera alvöru stjarna þarftu að vera auðmjúkur. Hér hefur mér verið tekið með opnum örmum og ég hef eignast góða vini í leikhópnum. Þetta var spennandi og mikið ævintýri fannst mér þegar ég hóf þessa göngu en það sem stendur upp úr er allt þetta frábæra fólk sem ég er að kynnast. Bæði mjög hæfileikaríkir listamenn og góðir vinir.“

Die Edda eftir Mikael Torfason og Þorleif Örn Arnarsson en sá síðarnefndi leikstýrir sýningunni.Aðsend mynd

Góð list brýtur tungumálamúrinn

Elma Stefanía segir að það hafi verið ótrúlega gaman að setja upp Die Edda í Burgtheater. 

„Ég fer með Völuspá á íslensku í upphafi sýningar og það var virkilega gefandi að læra hana. Eddan er okkur auðvitað svo mikilvæg og skemmtilegt að hefja ferilinn hér úti með því að færa Vínarbúum menningararfinn okkar frá Íslandi. Þetta er líka frábær sýning eftir þá Mikael Torfason, manninn minn, og Þorleif Örn Arnarsson. Ég fer með tvö hlutverk í sýningunni. Í fyrri hlutanum er ég einskonar skapanorn sem þylur upp úr sér Völuspá meðal annars og í seinni hlutanum er ég Hel en hún talar þýsku í þessari sýningu og það var auðvitað mikil áskorun. En fyrst og síðast þá er þetta sýning sem gaman að er sýna og leikhópurinn samheldinn og sterkur.“

Margir Íslendingar hafa farið að sjá Elmu Stefaníu í Die Edda, þar á meðal sjálfur forseti Íslands.

„Guðni kom hingað út og var að mér heyrðist nokkuð lunkinn í þýskunni. Það er alltaf gaman þegar Íslendingar koma í Burgtheater. Leikhúsið er eitt fallegasta hús sem ég hef komið inn í. Gustav Klimt málaði myndir í loftið og hér drýpur list af hverju strái. Fólk á endilega að fara í leikhús ef það fer til Vínar, jafnvel þótt það kunni ekki þýsku. Eddan er til dæmis mikið „sjóv“ og allir sem hafa komið hafa skemmt sér mjög vel þótt þau hafi á köflum skilið lítið. Góð list brýtur tungumálamúrinn,“ segir Elma Stefanía.

Guðni Th. Jóhannesson kom á frumsýningu Die Edda í Burgtheater. Hér er hann ásamt Elmu sem er rétt nýstigin af sviðinu og þeim Þorleifi Erni Arnarssyni og Mikael Torfasyni, höfundum leiksýningarinnar.Mynd/Úr einkasafni

Harðasti ritrýnirinn

Elma Stefanía segir að það sé „bara geggjað“ að vinna svona mikið með Mikael eiginmanni sínum. Hann tekur undir þetta.

„Það er náttúrulega aðeins meira álag á heimilishaldinu þegar við erum bæði að vinna í sömu sýningunni. Þá náttúrulega kemur tengdamamma og bjargar okkur því venjulega er ég meira svona heimavinnandi húsfaðir sem kann best við sig í eldhúsinu að elda góðan mat. Elma er líka minn harðasti ritrýnir og því er virkilega gaman að skrifa texta fyrir hana,“ segir Mikael um samstarfið þeirra.

Elma Stefanía og Mikael eignuðust saman dótturina Ídu árið 2017 en fyrir áttu þau bæði börn úr fyrri samböndum. Aðspurð hvort það hafi breytt sambandinu þeirra að eignast barn saman, svarar Elma Stefanía að þau hafi allt í einu bæði orðið ofboðslega þreytt. 

„Þrátt fyrir að vera bæði svona orkumikil þá er það aðalbreytingin. Ída er nefnilega orkubolti eins og stóri bróðir sinn, hann Jóel Torfi sem er þrettán ára fótboltastrákur á Íslandi. Þau eru svipaðar týpur og alltaf hress og skemmtileg.“ 

Elma Stefanía lék í Hvítum, hvítum degi með Ídu dóttur sinni, sem var þá aðeins eins árs gömul. Hún segir að það hafi verið rosalega skemmtileg upplifun. Kvikmyndin er framlag Íslands til Óskarsverðlaunanna sem fara fram á næsta ári. 

„Mamma var auðvitað með mér á tökustað og svo var hún Ída Mekkín dóttir Hlyns að leika aðalhlutverkið og þetta var því frekar mikil fjölskyldustemning.“ 

: Ídurnar tvær léku systur í Hvítum, hvítum degi. Sú eldri er Ída Hlynsdóttir, dóttir leikstjóra myndarinnar.- Bíóafi Ídu er enginn annar en Ingvar E. Sigurðsson en Elma lék dóttur hans. - Á þriðju myndinni er Ída hjá leikstjóranum Hlyni Pálmasyni.Myndir/Úr einkasafni

Vel smurð vél

Fjölskyldan hefur aðlagast mjög vel lífinu í Vín. Ída litla er komin á leikskóla og Ísold í menntaskóla. „Það er annað kerfi hérna og börn byrja 10 ára í menntó og útskrifast þaðan 18 ára. Vissulega breyting og krefjandi fyrir Ísold en hún stendur sig þvílíkt vel og talar þýsku eins og innfædd væri, segir Elma Stefanía.

„Við fluttum til tveggja landa á innan við ári og það er ekki hægt að neita því að þetta hefur verið mikið álag,“ segir Elma Stefanía um áhrifin sem flutningurinn hafði á samband þeirra hjóna.

 

 
 
 
View this post on Instagram

A post shared by Elma Stefania Agustsdottir (@elmastefania) on Oct 24, 2018 at 3:44pm PDT



„Við erum hins vegar orðin eins og vel smurð vél. Bæði erum við frekar orkumikil og tökumst á við verkefnin um leið og þau koma upp. Til dæmis voru fyrstu jólin okkar í Vín haldin á AKH háskólasjúkrahúsinu því Ísold fékk botnlangakast á Þorláksmessu. Maður getur gert alls konar plön og svo gefur lífið manni önnur verkefni og maður bara tekst á við þau. En allt er gott sem endar vel,“ segir Elma Stefanía.  

Ísold er nú komin heim af spítalanum og er öll að braggast. Hún er sjálf mjög ánægð með dvölina í Vín.   

„Þetta er æðislegt. Allt er svo fallegt hérna og ég hef eignast góðar vinkonur hér. Hér er fullt af höllum og maturinn er ágætur. Vínarsnitselið er gott en ég má ekki borða snitsel í þrjár vikur út af botnlanganum,“ segir Ísold. 

Elma Stefanía í sminkinu í Burgtheater skömmu fyrir leiksýningu. - Ein af sýningunum sem Elma leikur í er Hver er hræddur við Virginíu Woolf eftir Edward Albee í leikstjórn leikhússtjórans Martin KusejMyndir/úr einkasafni

Hversdagslegu hlutirnir kjarna

Æfingadagar Elmu Stefaníu í Burgtheater eru oft mjög langir og strangir. 

„Ef ég er að æfa nýtt leikrit þá eru æfingar oft bara frá 10 til 16 og stundum sýningar á kvöldin. En hér í hinum þýskumælandi leikhúsheimi er líka hefð fyrir að tvískipta stundum æfingum og æfa frá 10 til 14 og svo aftur frá 19 til 22. Það eru virkilega langir og erfiðir dagar og reyna mikið á líkamlega og andlega.“ 

Í frítímanum finnst henni skemmtilegast að vera með fjölskyldunni eða fara á kaffihús og listasöfn.

„Svo förum við auðvitað mikið í leikhús en ég er samt mjög heimakær manneskja og þykir best að vera hérna heima með fjölskyldunni. Þá eldum við góðan mat, bökum og lesum. Og svo tek ég til. Hljómar kannski illa? Nei, maður kjarnar sig best á þessum hversdagslegu hlutum finnst mér.“ 

Úr sýningunni Dies Irae eftir þá Kay Voges og Alexander Kerlin sem Elma leikur í í Vínarborg.Mynd/Úr einkasafni

Gæti flutt aftur á Hvolsvöll

Elma Stefanía er fædd í Reykjavík en flutti tveggja ára á Hvolsvöll þar sem hún bjó til 16 ára aldurs. Hún segir að það henti sér mjög vel að búa í stórborg eins og Vín.

„En ég þarf náttúruna og sveitina til mótvægis. Hér er mjög stutt í fjöllin og sveitina. Það var miklu lengra í allt slíkt í Berlín og mér fannst ég stundum pínu innilokuð þar þótt ég hafi fallið fyrir borginni sem slíkri. Vín er allt öðruvísi borg og miklu minni og auðskiljanlegri og styttra í fjöllin.“

Hún gæti alveg hugsað sér að flytja aftur á Hvolsvöll, í sumarhúsið þeirra sem er rétt austan við bæinn í um það bil 15 mínútna akstursfjarlægð. „Ég geri ráð fyrir að við verðum þar allt næsta sumar.“ Þangað til verður nóg að gera hjá Elmu Stefaníu í Vín.

„Við byrjum æfingar á Pétri Gaut um miðjan febrúar. Þangað til er ég í æfingarfríi og bara að sýna. Reyndar fer ég í tvær leikferðir núna til Hamborgar í Þýskalandi og Wintertour í Sviss. Við sýnum Die Edda í Hamborg og Hver er hræddur við Virginiu Woolf í Sviss. Þannig að þetta er ekkert frí þannig séð þótt það sé virkilega gott að vera ekki á æfingum á daginn næsta mánuðinn og rúmlega það,“ segir Elma Stefanía að lokum.


Tengdar fréttir

Hvítur, hvítur dagur framlag Íslands til Óskarsverðlauna

Kvikmyndin Hvítur, hvítur dagur verður framlag Íslands til Óskarsverðlauna 2020. Hlaut hún afgerandi sigur í rafrænni atkvæðagreiðslu um framlag Íslands, en það eru meðlimir í ÍKSA, Íslensku kvikmynda og sjónvarpsakademíunni sem hafa kosningarétt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×