Meirihluti Samfylkingar, Vinstri grænna, Pírata og Bjartrar framtíðar féll í sveitastjórnarkosningunum í gær. Vinstri græn hlutu 4,6% atkvæða og tapar 3,7% prósentustigum frá því í síðustu kosningum, þar sem flokkurinn fékk 8,3% atkvæða.
Nýir flokkar taka fylgi
Líf segir í samtali við Vísi að niðurstaðan sé óverðskulduð.„Að sjálfsögðu eru þetta ótrúlega mikil vonbrigði og ég ætla að segja eins og er að þetta er algjörlega óverðskuldað, finnst mér, af því að við höfum komið til leiðar mjög mörgum framfaramálum í borginni á kjörtímabilinu,“ segir Líf.
„En vinstrið er að fá rassskellingu,“ bætir hún við.
Þá telur hún augljóst að nýir flokkar eins og Flokkur fólksins og Sósíalistaflokkurinn hafi tekið fylgi af Vinstri grænum, auk smáframboða á borð við Kvennahreyfinguna. Líf segir nýju flokkanna mögulega njóta góðs af reynsluleysi í borgarstjórn.
„Þessir flokkar sem byrja með nýtt spil eiga kannski eftir að vera í sömu stöðu og við í Vinstri grænum einn daginn,“ segir Líf.
Sárir vinstrimenn vilja líka refsa
Ríkisstjórnarsamstarf Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins hefur verið umdeilt, sérstaklega meðal flokksfélaga innan Vinstri grænna. Þegar Líf er innt eftir því hvort fylgistapið megi e.t.v. rekja til ríkisstjórnarsamstarfsins segir hún að niðurstaða sveitarstjórnarkosninganna sé engum að kenna.„Við erum bara búin að vera í ríkisstjórn í fimm mánuði, við erum ekki farin að sjá öll góðu verkin sem þessi ríkisstjórn er að leiða í gegn. Það er ekki komin reynsla á þetta ríkisstjórnarsamstarf og menn eru kannski enn í sárum, okkar kjósendur,“ segir Líf.
„Og ég held að þegar vinstri menn verða sárir, vegna þess að þeir eru að drepast úr réttlætiskennd og ég elska það, þá vilja þeir líka refsa.“
Um mögulega aðkomu Vinstri grænna að meirihluta í nýkjörinni borgarstjórn segir Líf að engar þreifingar séu enn hafnar af sinni hálfu. Hún segist þó vera að meta samningsstöðu flokksins og telur mikilvægt að hann komi að samningsborðinu.
„Aldrei að vanmeta Vinstri græn,“ segir Líf.