Ragnar Sigurðsson lék allan leikinn í vörn Íslands í kvöld. Hann var vitaskuld svekktur í lok leiks þegar Vísir ræddi við hann.
„Að sjálfsögðu erum við svekktir að ná ekki neinu út úr þessum leik. Við byrjuðum leikinn frekar illa en síðan var þetta mjög jafn leikur og fyrsta markið kemur upp úr engu finnst mér. Svo ná þeir öðru ódýru marki og við vorum svo mjög óheppnir að ná ekki að jafna þetta í endann, við vorum betri og áttum fullt af færum sem markmaðurinn þeirra var að verja og þeir voru góðir í að fara fyrir skotin okkar. Það var smá óheppni í þessu“, sagði Ragnar Sigurðsson þegar blaðamenn náðu á hann eftir leikinn.
Hann var spurður út í fyrsta markið sem liðið fékk á sig en í báðum mörkunum var um einbeitingarleysi og samskiptaleysi að ræða, sem er sjaldséð hjá íslenska landsliðinu.
„Ég veit eiginlega ekki hvað var í gangi í fyrsta markinu, ég þyrfti að sjá þetta aftur. Mér fannst ekkert vera í gangi og svo kemur góð fyrirgjöf og góður skalli en það voru önnur augnablik í leiknum sem voru hættulegri og það kom ekkert út úr þeim þannig að það var ágætis skellur að fá á sig fyrsta markið“.
Ragnar hefur litlar áhyggjur af því hvaða áhrif það hefur að hafa ekki náð sigri í dag þegar litið er til næstu undankeppni.
„Þetta hefur náttúrlega áhrif á styrkleikaröðina hjá okkur en ég held að þetta skipti ekki höfuðmáli þegar riðlakeppnin byrjar“.
Að lokum ræddi Ragnar um það jákvæða sem hægt er að taka út úr þessum tveimur leikjum sem Ísland spilaði þessa vikuna.
„Síðustu tveir leikir finnst mér hafa verið góðir og mikill stígandi í okkar leik. Mér finnst við hafa átt meira skilið út úr þeim og eitthvað til að byggja á og þó við séum pirraðir núna þá er margt mjög jákvætt við þessa leiki“