Bandaríski leikarinn Dwayne „The Rock“ Johnson hyggst ekki bjóða sig fram til embættis Bandaríkjaforseta árið 2020.
„Því miður sé ég ekki fram á að það gerist 2020. Þetta er staða sem þarfnast áralangrar erfiðisvinnu og reynslu til að tileinka sér kunnáttuna,“ sagði leikarinn í viðtali við Vanity Fair í vikunni. Hann bætti við að dagskráin væri ansi þétt næstu árin og því væri forsetaframboð árið 2020 útilokað.
Sjá einnig: The Rock íhugar forsetaframboð
The Rock hefur nokkrum sinnum lýst yfir áhuga á forsetaembættinu í gegnum tíðina. Í viðtali við tímaritið GQ árið 2016 sagði hann að tilhugsunin um að vera ríkisstjóri eða forseti væri „aðlaðandi“. Mánuði síðar sagðist hann íhuga alvarlega að skella sér í framboð þar eð hann hefði fundið fyrir svo miklum stuðningi frá aðdáendum sínum.
Síðan þá hefur málið komið reglulega upp í viðtölum við leikarann en þetta er í fyrsta sinn sem hann útilokar forsetaframboð algjörlega. Þó verður að athuga að það verða vissulega kosningar eftir þær næstu og The Rock gæti því komið sterkur inn árið 2024.

