Innlent

Gert ráð fyrir að sjór geti flætt í nýja vaðlaug á Akranesi

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Laugin var formlega opnuð í dag.
Laugin var formlega opnuð í dag. Mynd/Akranesbær
Guðlaug á Langasandi við Akranes var formlega opnuð almenningi við hátíðlega athöfn. Félagar úr Sjóbaðsfélagi Akraness voru fyrstu til að skella sér í laugina ásamt öðrum gestum.

Laugin samanstendur af útsýnispalli, heitri laug og grynnri laug sem nýtur vatna úr yfirfalli efri laugarinnar. Útsýni úr lauginni er yfir Faxaflóann og til Reykjavíkur. Hæð mannvirkisins er um 6 metrar yfir meðal stórstreymis flóði og er gert ráð fyrir því að sjór geti flætt inn í vaðlaugina.

„Hugmyndin fyrir Guðlaugu kviknaði útfrá dældum sem myndast umhverfis steina á sandinum, þannig myndast litlar náttúrulegar „laugar“ í flæðamálinu. Þessa hugmynd tókum við svo áfram og formuðum mannvirki á þremur stöllum í sjóvarnargarðinum sem hver og einn hverfist um stakan stein líkt og á ströndinni. Efst er útsýnispallur sem vísar til skipsstafns, í miðjunni er laugin sjálf sem nýtur útsýnis út á hafið og skjóls frá pallinum fyrir ofan, neðst er svo laug þar sem sjórinn og vatnið frá lauginni fyrir ofan blandast,“ er haft eftir Hrólfi Karl Vela, arkitekt Guðlaugar.

Guðlaug verður opin í vetur alla miðviku- og föstudaga frá kl. 16-20 og laugar- og sunnudaga frá kl. 10-14. Opnunartími getur tekið breytingum og eru gestir laugarinnar hvattir til að fylgjast með upplýsingaflæði á facebooksíðu Guðlaugar. Laugin er gjaldfrjáls og eru búningsklefar á staðnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×