Innlent

Stjórn Varðar krefst af­sagnar borgar­stjóra vegna Bragga­málsins

Atli Ísleifsson skrifar
Vísir/Elín Margrét
Stjórn Varðar, fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík, krefst þess að Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segi af sér embætti vegna Braggamálsins.

Þetta kemur fram í ályktun frá Verði. Þar segir að stjórnin „[fordæmi] þau forkastanlegu vinnubrögð Reykjavíkurborgar sem útlistuð eru í skýrslu innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar um Nauthólsveg 100“.

Stjórn Varðar krefst þess að borgarstjóri „axli fulla ábyrgð á þessu máli og hvetur Vörður hann til að segja af sér embætti“. Innantóm loforð um bætta stjórnunarhætti eða skipan nýrra starfshópa dugi hreinlega ekki í kjölfar þess áfellisdóms sem skýrsla innri endurskoðunar svo sannarlega er, líkt og segir í ályktuninni.

„Fyrir liggur að við framkvæmd þessa var brotið gegn innkaupareglum Reykjavíkurborgar, undanþáguheimilda innkauparáðs var ekki aflað, en borginni ber skylda til að afla þeirra. Þá liggur jafnframt fyrir að borgin eyddi mikilvægum gögnum í tengslum við málið, en slík vinnubrögð eru ekki íslensku stjórnvaldi til sóma.

Ábyrgð æðstu yfirmanna borgarinnar í máli þessu er bæði algjör og vítaverð, það er því lágmarkskrafa að þeir axli hana af fullri einlægni og stígi til hliðar,“ segir í ályktun stjórnar Varðar.

Dagur víki sæti

Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks, krafðist þess fyrr í dag að hún krefjist þess að borgarstjóri víki úr hópi sem sé ætlað að rýna í niðurstöðu skýrslu Innri endurskoðunar borgarinnar. „Skýrslan var áfellisdómur yfir borgarstjóra og enginn er dómari í eigin sök,“ segir Hildur sem kveðst sjálf munu segja sig úr hópnum, gangi Dagur ekki að kröfum hennar.

Þá sagði Marta Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks, að borgarstjóri geti ekki vikið sér undan því að axla ábyrgð á málinu. Telji hún rétt að Dagur segi af sér.

Framúrkeyrsla Braggans hefur verið mikið rædd en raunkostnaður við byggingu nam 425 milljónum króna, en upphafleg kostnaðaráætlun nam 158 milljónir króna. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×