Erlent

Ungt par lést með nokkurra klukkustunda millibili

Sylvía Hall skrifar
Parið hafði verið saman í átta ár.
Parið hafði verið saman í átta ár. Facebook
Breskt par búsett í Ástralíu lést með aðeins nokkurra klukkustunda millibili á laugardaginn. Jason Francis var 29 ára þegar hann lést eftir að hafa orðið fyrir bíl. Unnusta hans, Alice Robinson, fannst látin nokkrum klukkustundum eftir slysið.

Francis varð fyrir bíl 18 ára pizzasendils í Scarborough á laugardagskvöld og var látinn við komu á spítala. Robinson var aðeins nokkra metra í burtu að bíða eftir að unnusti sinn kæmi heim þegar hún sá ljós sjúkrabíla fyrir utan og hljóp að vettvangi.

Hún er sögð hafa verið buguð af sorg eftir slysið en þau höfðu verið saman í átta ár. Robinson fannst látin í Mount Hawthorn hverfinu innan við sólarhring eftir dauða Francis en andlát hennar er ekki talið hafa borið að með saknæmum hætti.

Hátt í sextán þúsund pund hafa safnast fyrir fjölskyldur þeirra síðan á jóladag, tæplega tvær og hálf milljón íslenskra króna.

Francis var mikill íþróttamaður og spilaði meðal annars með Market Drayton fótboltafélaginu í Englandi. Félagið greindi frá andláti hans á Twitter-síðu sinni og minntist hans sem mikilvægs leikmanns sem spilaði stórt hlutverk í liðinu í tíð hans hjá félaginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×