United og Juventus töpuðu bæði

Anton Ingi Leifsson skrifar
Klaufalegt mark Phil Jones í kvöld.
Klaufalegt mark Phil Jones í kvöld. Vísir/Getty
Manchester United tapaði 2-1 fyrir Valencia á útivelli í lokaumferðinni í H-riðli Meistaradeildarinnar.

United hvíldi marga af sínum lykilmönnum enda voru þeir fyrir leikinn búnir að tryggja sér sæti í 16-liða úrslitunum. Þó var ekki ráðið hvort að United eða Juventus myndi vinna riðilinn.

Valencia komst yfir á sautjándu mínútu er Carlos Soler skoraði fyrir Valencia með þrumuskoti úr teignum. Óverjandi fyrir Sergio Romero sem stóð í markinu.

Í upphafi síðari hálfleiks tvöfölduðu svo heimamenn forystuna með skrautlegu marki. Phil Jones skoraði þá sjálfsmark. Afar klaufalegt en hann ætlaði að senda boltann til baka á meðan Sergio Romero kom út úr markinu. Ótrúlega klaufalegt.

United náði að minnka muninn þremur mínútum fyrir leikslok er varamaðurinn Marcus Rashford kom boltanum í netið eftir fyrirgjöf. Nær komust United-menn þó ekki og lokatölur 2-1.

Í hinum leik riðilsins urðu afar óvænt úrslit er Young Boys vann 2-1 sigur á Juventus. Guillaume Hoarau kom þeim svissnesku yfir á 30. mínútu og hann tvöfaldaði svo forystuna á 68. mínútu.

Varamaðurinn Paulo Dybala minnaði muninn fyrir Juventus tíu mínútum fyrir leikslok með frábæru skoti en ítölsku meistararnir þurftu að sætta sig við 2-1 tap í Sviss.

Juventus endar þó á toppi riðilsins með tólf stig, United í öðru með tíu, Valencia í því þriðja með átta og Young Boys á botninum með fjögur.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira