Innlent

Fallið frá niðurskurði til Rannsóknasjóðs

Sighvatur Arnmundsson skrifar
Frá þingi.
Frá þingi. Fréttablaðið/Anton Brink
„Þetta er farsæl lausn fyrir rannsóknir og vísindi. Ég fagna þessari breytingartillögu hjá meirihluta fjárlaganefndar en það verða líka gerðar tilfærslur milli málaflokka. Þetta er auðvitað í anda þess sem við viljum sem er að efla rannsóknir og vísindi,“ segir Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Ríkisstjórnin og meirihluti fjárlaganefndar ákváðu í gær að falla frá 144 milljóna króna niðurskurði á framlögum til Rannsóknasjóðs Vísinda- og tækniráðs. Samkvæmt viðbótarbreytingartillögu meirihlutans við 3. umræðu koma 70 milljónir inn í sjóðinn til að mæta fyrrgreindum niðurskurði.

Afgangurinn verður fjármagnaður með tilfærsluheimildum ráðherra. Eins og Fréttablaðið greindi frá á þriðjudag vöktu áformin furðu meðal vísindamanna. Erna Magnúsdóttir, forseti Vísindafélags Íslendinga, sagði meðal annars að tillögurnar væru skellur og að þingmenn virtust ekki átta sig á hversu mikil áhrif þetta hefði.

„Það er auðvitað mjög ánægjulegt að við gátum fundið þessa leið og tekið þannig tillit til þeirrar gagnrýni sem fram kom,“ segir Lilja. Þriðju umræðu um fjárlagafrumvarp næsta árs lauk í gær en til stendur að afgreiða málið á þingfundi á morgun.


Tengdar fréttir

Forviða á hugmyndum um niðurskurð til Rannsóknasjóðs

Forseti Vísindafélags Íslendinga er hissa á fyrirhuguðum niðurskurði á framlögum til Rannsóknasjóðs. Prófessor við læknadeild HÍ og stofnandi lyfjaþróunarfyrirtækis segir að án styrkja hefði ekkert orðið af fyrirtæki sínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×