Innlent

Hæstiréttur felldi úrskurð úr gildi vegna nafnsins Zoe

Birgir Olgeirsson skrifar
Hæstiréttur sneri dómi Héraðsdóms Reykjaíkur í málinu.
Hæstiréttur sneri dómi Héraðsdóms Reykjaíkur í málinu. FBL/GVA
Hæstiréttur hefur fellt úr gildi ákvörðun mannanafnanefndar að hafna nafninu Zoe sem foreldrar ónefndrar stúlku höfðu sótt um skráningu á.

Mannanafnanefnd taldi að nafnið Zoe væri hvorki ritað eftir almennum ritreglum íslensk máls þar sem bókstafurinn z væri ekki notaður í íslenskri stafsetningu né að ritháttur nafnsins hefði öðlast hefð hér á landi.

Í dómi Hæstaréttar kom fram að með því að mannanafnanefnd hefði eingöngu tekið afstöðu til framangreindra atriða gæti ekki komið til athugunar við úrlausn ógildingarkröfunnar önnur skilyrði ákvæðisins, svo sem stafsetningu nafnsins að öðru leyti, hvort eða hvernig það gæti tekið íslenska eignarfallsendingu eða hvort það brjóti í bága við íslenskt málkerfi.

Vísað var til þess að í auglýsingu frá árinu 1974 um íslenska stafsetningu, sem hefði afnumið bókstafinn „z“ við stafsetningu íslenskra orða, hefðu verið gerðar undantekningar um mannanöfn og tilgreint að í sérnöfnum, erlendum að uppruna, mætti rita „z“. Af þessum sökum hefði grunnforsenda í úrskurði mannanafnanefndar ekki staðist og þegar af þeirri ástæðu var talið óhjákvæmilegt að fella úrskurðinn úr gildi.

Það voru foreldrar stúlkunnar sem fóru fram á ógildingu úrskurðar mannanafnanefndar. Ógildingar kröfunni hafði verið hafnað í héraði en Hæstiréttur sneri þeirri ákvörðun, án þess að taka þó afstöðu til þess hvort að stúlkan megi bera nafnið.

Mannanafnanefnd tók aðeins fram í úrskurði sínum að bókstafurinn z væri ekki notaður í íslenskri stafsetningu og að ritháttur nafnsins hefði ekki öðlast hefð hér á landi. Því hefði ekki komið til athuganar hjá Hæstarétti önnur skilyrði sem Mannanafnanefnd liti til, þar á meðal hvort eða hvernig nafnið Zoe gæti tekið eignarfallsendingu og hvort það brjóti í bága við íslenskt málkerfi.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.