Innlent

Allt að 19 mánaða bið til að greina einhverfu

Sveinn Arnarsson skrifar
Anna Björg Kristinsdóttir og sonur hennar, Domenic, bíða eftir því að komast að hjá Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins. Domenic fær líkast til ekki greiningu fyrr en hann verður orðinn hartnær fimm ára.
Anna Björg Kristinsdóttir og sonur hennar, Domenic, bíða eftir því að komast að hjá Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins. Domenic fær líkast til ekki greiningu fyrr en hann verður orðinn hartnær fimm ára. Fréttablaðið/Ernir

Anna Björg Kristinsdóttir er móðir drengs sem fæddur er í október 2015. Þau hafa fengið að heyra frá sálfræðingum að mjög líklega sé drengurinn einhverfur. Hins vegar bíða þau eftir að komast að hjá Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins til að fá staðfestingu á að um einhverfu er að ræða.

„Við höfum rætt við sálfræðinga sem gefa það út að hann sé einhverfur. Hins vegar bíðum við eftir því að komast inn í greiningu. Núna er líklegt að við komumst að hjá þeim árið 2020. Þá er barnið mitt komið á fimmta aldursár. Það gefur augaleið að það gengur ekki,“ segir Anna Björg. Tæplega 340 börn eru á biðlista eftir greiningu hjá Greiningarstöðinni.

Börn á aldrinum tveggja til sex ára þurfa að bíða í allt að 19 mánuði eftir greiningu og börn á aldrinum frá þeim aldri til átján ára aldurs í allt að 16 mánuði. Soffía Lárusdóttir, forstöðumaður Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins, segir stofnunina af þeim sökum ekki geta sinnt skyldum sínum. Greiningarstöðin á að sinna svokallaðri snemmtækri íhlutun þar sem lögð er áhersla á markvissar aðgerðir til að hægt sé að hafa sem mest áhrif á þroskaframvindu barna eins snemma á lífsleiðinni og unnt er. Rannsóknir og þróun þekkingar undanfarna áratugi hafa sýnt fram á mikilvægi snemmtækrar íhlutunar, segir á vef Greiningarstöðvarinnar.

„Eins og staðan er núna er átján mánaða bið hjá okkur sem kemur engum vel,“ segir Anna Björg. „Við erum búin að fá staðfestingu á einhverfu. Núna ætti hins vegar að vera komin aðstoð fyrir hann. Sonur minn fer tvisvar til þrisvar í viku á leikskólann eins og staðan er núna. Hann þarf á miklum stuðningi að halda en það er ekki til staðar. Þetta helst einhvern veginn allt í hendur. Svo þarf ég núna að redda sjálf talþjálfun og þroskaþjálfa en það er ekki greitt nema ég taki það úr eigin vasa því hann er ekki með greiningu.

Hann fengi meiri aðstoð ef greining kæmi fyrr.“ Eins og staðan er í dag er Greiningar- og ráðgjafarstöð ekki að sinna lagalegum skyldum sínum gagnvart þeim hópi sem er á biðlista, segir Soffía. „Það er mat stofnunarinnar að fjölga þurfi stöðugildum um tíu til tólf á næstu fjórum árum, kostnaður við það er áætlaður um 180 til 200 milljónir króna.“

Ljóst er að þessi bið eftir greiningu getur haft alvarlegar afleiðingar því oft og tíðum er um að ræða afar mikilvægan tíma í þroska barna sem bíða eftir hvers konar greiningum. Hlutverk stofnunarinnar er meðal annars að annast greiningu og ráðgjöf vegna barna með víðtæka þroskaskerðingu. Að sama skapi fæst ekki nægilegt fjármagn inn til menntastofnana, leikskóla og grunnskóla með hverju barni á meðan það hefur ekki greiningu frá stöðinni. Því getur þessi bið, nærri tvö ár í sumum tilfellum, hamlað þroska þessara barna.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.