Erlent

Rússar ósáttir við afskipti af kosningum í Interpol

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Kim Jong-yang, nýkjörinn forseti Interpol.
Kim Jong-yang, nýkjörinn forseti Interpol. Nordic­photos/AFP
Öllum að óvörum var Suður-Kóreumaðurinn Kim Jong-yang kjörinn forseti Interpol á árlegu þingi stofnunarinnar sem fór fram í borginni Dúbaí í Sameinuðu arabísku furstadæmunum í gær. Kjör Kim kom á óvart þar sem talið var nærri öruggt að Rússinn Alexander Prokoptsjúk myndi verða fyrir valinu.

Prokoptsjúk hefur verið varaforseti Interpol frá árinu 2016. Hann hefur hins vegar verið sakaður um að beita handtökuskipanavaldi sínu sérstaklega gegn gagnrýnendum rússneskra stjórnvalda á meðan hann var yfir Interpol í Moskvu. Engar slíkar ásakanir hafa hins vegar verið settar fram á meðan hann hefur verið varaforseti.

Samkvæmt úttekt BBC má meðal annars kenna ótta rússneskra mannréttindabaráttusamtaka og embættismanna annarra ríkja um að hann myndi nýta stöðu sína til þess að hjálpa stjórn Vladimírs Pútín forseta. Þá er vert að taka fram að hópur bandarískra öldungadeildarþingmanna úr báðum flokkum sendi frá sér yfirlýsingu sem sagði að það væri líkt og að troða minki í hænsnabú að kjósa Prokoptsjúk.

Yfirvöld í Moskvu brugðust illa við ósigrinum. Í yfirlýsingu frá Kreml sagði að orð öldungadeildarþingmannanna teldust óeðlileg afskipti af kosningum. Setja má það í samhengi við meint áhrif Rússa á forsetakosningar Bandaríkjanna 2016.

Suður-Kóreumenn fögnuðu niðurstöðunum hins vegar. „Við erum ofboðslega stolt. Ég, og vitaskuld þjóðin öll, sendi hamingjuóskir,“ tísti Moon Jae-in, forseti Suður-Kóreu.




Tengdar fréttir

Óvænt tap Rússa í forsetakjöri Interpol

Suður-Kóreubúinn Kim Jong-yang bar óvænt sigur úr bítum í kosningum um forseta alþjóðalögreglunnar Interpol á ársþingi lögreglunnar í Dubai. Flestir höfðu talið líklegt að mótframbjóðandi hans, Rússinn Alexander Prokopchuk, yrði kjörinn forseti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×