Innlent

Í gæsluvarðhald grunaður um að herja á vinsæla ferðamannabíla

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Dacia Duster jepplingurinn.
Dacia Duster jepplingurinn.

Landsréttur hefur staðfest úskurð Héraðsdóms Reykjavíkur þess efnis að karlmaður skuli sæta gæsluvarðhaldi til næstkomandi miðvikudags. Maðurinn er grunaður um fjölmörg innbrot í Dacia Duster bíla undanfarnar vikur þar sem talsverðum verðmætum hefur verið stolið úr bílunum.

Duster-bílarnir eru algeng sjón á vegum landsins en undanfarin ár hafa bílaleigur keypt fjölmarga slíka bíla og leigt þá út til ferðamanna.

Maðurinn er grunaður um minnst sex innbrot í Duster-bíla á tímabilinu 12. nóvember til 20. nóvember. Maðurinn var handtekinn eftir að brotist var inn í Duster-bíl sem var undir eftirliti lögreglu þann 20. nóvember. Lögregla bar kenns á manninn af myndupptökum þar sem sjá má mann brjótast inn í bílinn og stela þaðan fartölvu.

Við skýrslutöku neitaði hann sök, sagðist ekki þekkja sig af myndbandsupptökunum og að fartölvuna, samskonar þeirri sem stolið var úr bílnum, hafi hann fundið við ruslagám við Hallgrímskirkju.

Landsréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms. Vísir/Vilhelm

Handtekinn klæddur í jakka sem saknað var eftir innbrot í Duster

Þá er maðurinn einnig grunaður um að hafa stolið myndavélum og drónum að andvirði 800 þúsund króna úr Duster-bíl þann 18. nóvember. Er hann einnig grunaður um að hafa meðal annars stolið myndavél, gleraugum og jakka en er hann var handtekinn þann 12. nóvember eftir innbrot í Duster-bíl var hann klæddur í jakkann sem saknað var eftir innbrotið. Sagðist maðurinn hins vegar hafa fengið jakkann tveimur dögum áður.

Í greinargerð lögreglu vegna málsins segir að rannsókn lögreglu á innbrotunum sé á frumstigi og verið sé að leita að því þýfi sem ekki hafi fundist eftir innbrotin. Þá sé verið að rannsaka hvort að maðurinn hafi átt sér samverkamenn. Þá séu einnig til rannsóknar fjöldi annarra sambærilegra mála á hendur manninum.

Veruleg hætta sé á því að maðurinn torveldi rannsókn málsins gangi hann laus og fór lögregla því fram á að maðurinn sæti einangrun til 28. nóvember næstkomandi. Héraðsdómur féllst á kröfu lögreglu og staðfesti Landsréttur úrskurð héraðsdóms í dag.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.