Innlent

Sjómannafélag Íslands fer fram á málskostnaðartryggingu frá Heiðveigu

Jóhann K. Jóhannsson skrifar
Heiðveig María Einarsdóttir við Félagdóm í dag
Heiðveig María Einarsdóttir við Félagdóm í dag Vísir/Vilhelm
Sjómannafélag Íslands gerði í dag þá kröfu að Heiðveig María Einarsdóttir greiði málskostnaðartryggingu vegna stefnu hennar gegn félaginu fyrir félagsdómi. Málið var þingfest síðdegis þar sem málsaðilar lögðu fram gögn en skorið verður úr um kröfu félagins á mánudag.

Lögmaður Heiðveigar stefndi Sjómannafélagi Íslands eftir að félagið gerði hana brottræka úr félaginu í lok síðasta mánaðar, með ólögmætum hætti að sögn lögmannsins. Heiðveig hafði gagnrýnt stjórn félagsins harðlega og gefið út að hún hygði á framboð til stjórnar í komandi stjórnarkosningum sem hefjast 24. nóvember næstkomandi.

Málið var þingfest í dag þar sem lögmaður Heiðveigar fór fram á flýtimeðferð en frestur til þess að leggja fram framboðslista í komandi stjórnarkjöri í Sjómannafélaginu rennur út á hádegi á mánudag.

„Það er allt of seint að gera það núna. Lögin eru skýr með það að kosningar skulu hefjast 24. nóvember og þær gera það hvort sem það er einn listi eða tveir listar eða fleiri,“ sagði Jónas Haraldsson, lögmaður Sjómannafélags Íslands eftir þingfestinguna í dag.

Lögmaður Sjómannafélags Íslands fór fram á það fyrir dómi að Heiðveigu yrði gert að leggja fram málskosnaðartryggingu vegna málaferlanna í ljósi þess að gert hafi verið árangurslaust fjárnám henni. Að sögn Heiðveigar er það vegna fasteignaveðkrafna frá því eftir hrun.

Málið er komið töluvert lengra en þú hafði ætlað þér kannski í upphafi. Hversu langt ætlar þú með það?

„Alla leið. Þetta er ekki boðlegt. Þetta er kolólöglegt að okkar mati og algjörlega fordæmalaust og engan veginn í lagi að okkar mati,“ sagði Heiðveig að lokinni þingfestingu.

Sjómannafélagið leggur fram málskostnaðarkröfu á hendur þér, áttu von á því að það eigi eftir að eyðileggja málið fyrir þér

„Að sjálfsögðu ekki nei. Ég er tryggð fyrir þessu og svo leyfi ég bara dómnum að úrskurða um það, ég hef engar áhyggjur af því,“ segir Heiðveig.

Dómurinn gat ekki skorið úr um kröfuna eða upphæð hennar þar sem dómur var ekki fjölskipaður og verði gert síðdegis á mánudag.

„Að þetta mál sé komið þetta langt er algjörlega galið að öllu leiti,“ segir Heiðveig.

Hefur þú heyrt um önnur framboð sem fyrirhugað er að leggja fram fyrir hádegi á mánudag?

„Já, ég hef heyrt það. Ég hef heyrt af lista stjórnar sem þeir hafa ekki gerst svo góðir að tilkynna fyrir félagsmönnum, þrátt fyrir að framboðsfrestur renni út á mánudag,“ segir Heiðveig.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.