Lífið

Sá sterki yfirleitt í stuttbuxum

Benedikt Bóas skrifar
Júlían, að sjálfsögðu í stuttbuxum eins og honum finnst best, með hundinum Stormi í Kópavogi. Fréttablaðið/Stefán
Júlían, að sjálfsögðu í stuttbuxum eins og honum finnst best, með hundinum Stormi í Kópavogi. Fréttablaðið/Stefán
„Ég á alveg gallabuxur en er ekkert sérstaklega mikið fyrir að vera í þannig buxum. Vil helst vera í stuttbuxum,“ segir heimsmethafinn Júlían J. K. Jóhannsson en tröllvaxnir fótleggir hans vekja athygli hvert sem hann fer.

Júlían tvíbætti heimsmetið í réttstöðulyftu á heimsmeistaramótinu í kraftlyftingum, sem fram fór í Halmstad í Svíþjóð fyrir skemmstu. Júlían reif þá upp 405 kíló nánast eins auðveldlega og að drekka vatn. Fyrra metið var 397,5 kíló sem Brad Gillingham frá Bandaríkjunum setti árið 2011.

Þess má geta að Júlían lyfti 410 kílóum í hnébeygju og 300 kílóum í bekkpressu á mótinu. Samanlagt henti hann því upp einu tonni og 115 kílóum betur. Þyngdirnar skiluðu Júlían í 4. sæti en hann var 20 kílóum frá bronsi. Rússinn Andrey Konovalov varð heimsmeistari en sá lyfti alls 1.252,5 kílóum.

Júlían J. K. Jóhannsson og Stormur
Eins og gefur að skilja þegar menn eru farnir að henda upp einu tonni í þremur lyftum, og 115 kílóum betur, er ekki hægt að labba inn í 17 og biðja um skyrtu í Large. Júlían þarf því að fara í sérstakar búðir til að geta fengið á sig föt – þó hann kunni best við sig á stuttbuxunum.

„Það eru nokkrar verslanir eins og Dressman XL sem hafa bjargað mér í gegnum tíðina. Þó ég sé ekkert mikið fyrir að vera í gallabuxum þá á ég alveg þannig buxur. Það nefnilega breytti öllu þegar gallabuxurnar voru gerðar úr teygjuefni. Þær gjörbreyttu leiknum,“ segir hann og hlær.

Júlían er ekkert að stressa sig á að fara að rífa upp lóðin alveg strax enda tekur meira en nokkrar mínútur að jafna sig eftir svona átök. Hann býst þó við að vera kominn inn í salinn á ný í næstu viku, en kappinn æfir í Breiðablik. „Ég er þó Ármenningur,“ segir hann stoltur, og ánægður með að vera í stuttum buxum þrátt fyrir stóra leggi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×