Innlent

Blaðamaður Stundarinnar sýknaður í ærumeiðingarmáli

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Landsréttur staðfesti sýknu héraðsdóms.
Landsréttur staðfesti sýknu héraðsdóms. Vísir/Vilhelm
Landsréttur staðfesti dóm héraðsdóms þar sem blaðamaður á Stundinni var sýknaður af kröfum fyrrverandi ritstjóra Reykjavík Grapevine um ærumeiðingar í dag.

Haukur S. Magnússon höfðaði mál gegn Áslaugu Karen Jóhannsdóttur vegna ummæla viðmælanda hennar í umfjöllun um að Haukur hafi þurft að láta af störfum sökum ásakana á hendur honum um kynferðislega áreitni í garð þriggja undirmanna hans. Umfjöllunin birtist í fréttablaði og á vef Stundarinnar í febrúar og mars árið 2016.

Í dómi héraðsdóms kom fram að umfjöllun um málefni sem þessi væru liður í þjóðfélagslegri umræðu og ætti erindi til almennings. Þar á meðal væri lýsing á efni ásakananna á hendur Hauki. Þá hefði hvergi verið staðhæft í umfjöllun Áslaugar að Haukur væri sekur um nokkur brot. Auk þess hafi verið haft eftir honum að hann vísaði umræddum ásökunum alfarið á bug.

Það var mat héraðsdóms að Áslaug hafi fylgt eðlilegu verklagi í fréttamennsku við umfjöllun sína og að hún hefði ekki farið út fyrir mörk leyfilegrar tjáningar í fjölmiðlum. Var hún því sýknuð í héraði og nú hefur sá dómur fengist staðfestur í Landsrétti.

Fór Haukur fram á tvær milljónir króna í miskabætur, ásamt dráttarvöxtum, og að ummælin sem um ræðir yrðu dæmd ómerk. Hauki var gert að greiða Áslaugu 700.000 krónur í áfrýjunarkostnað.  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×