Innlent

Þarf ekki að borga fyrir Spaðana

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Úr Héraðsdómi Reykjavíkur.
Úr Héraðsdómi Reykjavíkur. Fréttablaðið/Ernir
Karlmaður var í Héraðsdómi Reykjavíkur í upphafi síðustu viku sýknaður af kröfu um greiðslu á 255 þúsund krónum vegna flutninga á hestum.

Forsaga málsins er sú að í júlí í fyrra fór hópur manna í fimm daga hestaferð frá Hveravöllum til Kerlingarfjalla. Um vinahóp, sem kallast Spaðarnir, var að ræða en samkvæmt málavaxtalýsingu dómsins samanstendur hann af einstaklingum sem sækja Kaffibarinn.

Firmað Hestaflutningar annaðist flutninga á hrossunum. Fyrir það skyldu greiðast 20 þúsund á hross, alls 440 þúsund krónur. Stefndi millifærði 185 þúsund til fyrirtækisins en sagði að annar aðili væri með reiðufé fyrir mismuninum. Sá fannst ekki.

Dómurinn taldi að eiganda fyrirtækisins hefði ekki tekist að sanna að stefndi hefði ætlað að greiða fyrir flutninginn eða gangast í ábyrgð fyrir greiðslum annarra. Var hann því sýknaður vegna aðildarskorts. Hestaflutningar voru dæmdir til að greiða 600 þúsund í málskostnað.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×