Innlent

Áætlað að dælingu ljúki í dag

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Skipið strandaði aðfararnótt laugardags.
Skipið strandaði aðfararnótt laugardags. Vísir/Einar
Byrjað er að dæla olíu á ný úr sementsflutningaskipinu Fjordvik sem strandaði í Helguvík í fyrrinótt.

Hætta þurfti dælingu í gær þar sem dælurnar sem notaðar voru í verki voru ekki nægilega öflugar til verksins. Ástæðan fyrir því var hæðarmunur þar sem Fjordvik liggur nokkru lægra en dælurnar sem voru uppi á landi.

Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, segir í samtali við Vísi að nú sé búið að betrumbæta búnaðinn og aðferðirnar sem notaðar eru við dælinguna. Er áætlað að dælingu ljúki í dag en aðstæður á vettvangi eru góðar, sléttur sjór og logn.

Að sögn Kjartans verður ekki ráðist í aðrar aðgerðir við skipið fyrr en dælingu er lokið. Þannig munu kafarar ekki fara niður að því til að kanna skemmdir fyrr en búið er að dæla allri olíu úr skipinu.

Alls voru um 104 tonn af gasolíu um borð þegar Fjordvik strandaði. Eins og greint hefur verið frá er kominn sjór í vélarrúmið, vistarverur undir þiljum og eitthvað í lestina, þar sem sementið verður að klumpi ef það blotnar.


Tengdar fréttir

Áhöfn Fjordvik til ráðgjafar í dag

Áhöfn sementsflutningaskipsins Fjordvik sem strandaði í Helguvík hefur óskað eftir að fá að nálgast persónulega muni sína um borð. Þá aðstoðuðu skipstjóri og stýrimaður skipsins björgunarteymi á staðnum í dag. Byrjað var að dæla olíu úr skipinu um miðjan dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×