Innlent

Menn ruddust inn og skemmdu íbúðina en það taldist ekki innbrot

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Atvikið átti sér stað á Akureyri í febrúar á þessu ári. FRÉTTABLAÐIÐ/AUÐUNN
Atvikið átti sér stað á Akureyri í febrúar á þessu ári. FRÉTTABLAÐIÐ/AUÐUNN
Fasteignareigandi á Akureyri á ekki rétt á bótum úr tryggingu eftir að tveir menn ruddust inn í húseign hans og lögðu í rúst. Þetta er niðurstaða úrskurðarnefndar í vátryggingamálum (ÚRVá). Eigandinn hafði leigt eign sína út um stundarsakir í byrjun febrúar 2018.

Tveir menn töldu sig eiga vantalað við leigutakann og ruddust inn til hans. Eyðilögðu sjónvarpsskáp, skemmdu innréttingu á baði og eyðilögðu baðherbergishurð, svo fátt eitt sé nefnt. Eigandinn krafðist bóta en félagið neitaði ábyrgð þar sem að ekki hafi verið um innbrot að ræða.

Trygging mannsins tók til innbrota en þá ber vátryggðum að tryggja að hús sé alltaf læst og öllum gluggum lokað.

 

ÚRVá taldi að hugtakið innbrot yrði að túlka á þann veg að það tæki til athafnar þegar einhver bryti sér leið inn í húsnæði í stað þess að fara inn um venjulegar inngönguleiðir. Skemmdarvargarnir hefðu farið inn um dyr og því hefði ekki verið um innbrot að ræða. Niðurstaðan var sú að tryggingin næði ekki yfir tjón mannsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×