Erlent

Stefnir í slag um endurtalningu á Flórída

Kjartan Kjartansson skrifar
Rick Scott á kosningafundi með Donald Trump. Hann sakar demókrata um að reyna að stela sigri í kosningum um öldungadeildarþingsæti á Flórída.
Rick Scott á kosningafundi með Donald Trump. Hann sakar demókrata um að reyna að stela sigri í kosningum um öldungadeildarþingsæti á Flórída. Vísir/EPA

Svo mjótt er á mununum í ríkisstjóra- og öldungadeildarþingsætiskosningunum á Flórída í Bandaríkjunum að telja gæti þurft atkvæði þar aftur. Frambjóðandi repúblikana til öldungadeildarinnar sakar demókrata um að reyna að stela af sér sigri.

Á kosninganótt hafði Andrew Gillum, frambjóðandi demókrata til ríkisstjóra, viðurkennt ósigur fyrir Ron DeSantis. Þá var talið að Rick Scott, fyrrverandi ríkisstjóri repúblikana á Flórída, hefði borið sigurorð af Bill Nelson, frambjóðanda demókrata, um sæti í öldungadeild Bandaríkjaþings.

Mjótt var hins vegar á mununum og þegar atkvæði frá Broward-sýslu, þar sem mannskæð skotárás var framin í framhaldsskóla fyrr á þessu ári, voru talin dró mjög saman á milli frambjóðendanna.

Hundruð starfsmanna og sjálfboðaliða Demókrataflokksins hafa því reynt að hafa upp á fólki sem greiddi bráðabirgðaatkvæði í kosningunum til að tryggja að þau verði talin, að sögn Washington Post.

Samkvæmt lögum á Flórída verður að telja atkvæði aftur ef munur á frambjóðendum er innan við 0,5 prósentustig. Eins og stendur er Rick Scott, fyrrverandi ríkisstjóri Flórída og frambjóðandi repúblikana, með um 15.000 atkvæða forskot á Nelson, um 0,18 prósentustiga munur. Ron DeSantis, ríkisstjóraframbjóðandi repúblikana, er með 36.000 atkvæða forskot á Gillum, um 0,44 prósentustiga munur.

Sakar fulltrúa kjörstjórnar og demókrata um svik

Bæði Nelson og Gillum hafa tilkynnt að þeir ætli að fylgjast grannt með endurtalningu atkvæða ef af þeim verður. Gillum dró til baka viðurkenningu sína á ósigri.

Scott sakaði starfsmenn kjörstjórnar í Broward- og Pálmastrandarsýslum um möguleg svik án þess þó að leggja fram frekari sannanir fyrir máli sínu. Krafðist hann rannsóknar lögreglu.

„Ég mun ekki sitja með hendur í skauti á meðan ósiðlegir vinstrimenn reyna að stela þessum kosningum frá íbúum Flórída,“ sagði Scott. Marco Rubio, öldungadeildarþingmaður repúblikana á Flórída, tók undir ásakanir um að demókratar reyndu að „stela“ kosningunum.

Talsmaður Nelson segir aftur á móti að markmiðið sé að tryggja að atkvæði allra íbúa ríkisins séu talin og talin rétt.

„Aðgerðir Ricks Scott virðast vera af pólitískum hvötum og vegna örvæntingar,“ sagði talsmaðurinn.


Tengdar fréttir

Sviptingar í ríkisstjórakosningum

Repúblikanar unnu sigra í tveimur ríkjum þar sem demókratar höfðu gert sér vonir um sigur. Í Wisconsin náðu demókratar að fella umdeildan ríkisstjóra repúblikana.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.