Innlent

Erlend fjárfesting rædd á fundi ráðherra í Osló

Heimir Már Pétursson í Osló skrifar
Norrænu forsætisráðherrarnir ræddu mögulega samvinnu varðandi erlenda fjárfestingar og þá sérstaklega annarra ríkja í innviðum Norðurlandanna á fundi Norðurlandaráðs í morgun. 

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir norrænt samstarf alltaf hafa verið mikilvægt fyrir Íslendinga, ekki hvað síst á menningarsviðinu. Frá því hún sótti sitt fyrsta Norðurlandaráðsþing  hafi ráðið hins vegar þróast og orðið pólitískara. Það styrki Norðurlandaráð að hennar mati.

„Þar undir eru hlutir á borð við orkufyrirtæki, hafnir, flugvellir og land að sjálfsögðu. Það eru ólíkar aðstæður milli landa á milli landanna, ólíkur áhugi sem löndin hafa skynjað á þessari erlendu fjárfestingu. En málið var sett á dagskrá til að við gætum farið yfir lagaumgjörðina.“

Á fundi forsætisráðherranna fimm í morgun ræddu þeir erlenda fjárfestingu í innviðum ríkjanna. En bæði Danir og Bandaríkjamenn hafa brugðist við áhuga Kínverja á uppbyggingu flugvalla á Grænlandi með því að lofa miklum fjármunum til þeirra verkefna.

„Það er auðvitað ljóst að Kínverjar hafa verið að sýna aukinn áhuga á fjárfestingum um heim allan, það vissulega bar á góma. Ég myndi segja hins vegar að þessi umræða hafi verið fyrst og fremst til að greina ólíkt lagaumhverfi og sömuleiðis afstöðu Norðurlandanna á evrópskum vettvangi. Því nú erum við auðvitað töluvert bundin af því samstarfi sem við erum í þar.

Íslendingar og Norðmenn eru auðvitað innan EES svæðisins, þó að við séum ekki meðlimir í Evrópusambandinu, og þar eru þessi mál auðvitað mjög uppi á borðum. Þannig að það var töluvert rætt um það að við þyrftum að móta samnorræna afstöðu á evrópskum vettvangi,“ sagði Katrín Jakobsdóttir.

Við greinum nánar frá fundi Norðurlandaráðs í Osló í kvöldfréttum Stöðvar 2.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×