Erlent

Bein útsending: Geimfararnir lentir eftir að eldflaugin drap á sér

Samúel Karl Ólason skrifar
Eldflaugin er sögð hafa drepið á sér í lofti og þurftu geimfararnir að framkvæma neyðarlendingu.
Eldflaugin er sögð hafa drepið á sér í lofti og þurftu geimfararnir að framkvæma neyðarlendingu. AP/Dmitri Lovetsky

Geimfararnir Nick Hague og Alexey Ovchinin þurftu að framkvæma neyðarlendingu eftir að eldflaug, sem bera átti þá til Alþjóðlegu geimstöðvarinnar, drap á sér í miðju flugi. Þeim tókst að skilja geimfarið frá eldflauginni og fallhlífar geimfarsins báru þá til jarðar.

Þeir lentu heilu og höldnu í um tuttugu kílómetra fjarlægð frá Baikonur í Kasakstan þar sem geimskotið misheppnaða fór fram.

Alexey Ovchinin og Nick Hague. AP/Dmitri Lovetsky

Neyðarlending sem þessi kallast, samkvæmt NASA, Ballistic Descent og felur það í sér að geimfarið kemur til jarðar á meiri hraða en við eðlilegar kringumstæður.

Þetta var í fyrsta sinn sem Nick Hague átti að fara út í geim en nú þegar eru þau Alexander Gerst, frá Evrópsku geimferðastofnuninni, Serena Aunón-Chancellor, frá NASA, og Sergey Prokopyev, frá Roscosmos, um borð í geimstöðinni og hafa verið frá því í júní.

Áhöfnin sem er um borð í geimstöðinn hefur verið látin vita af aðstæðum á jörðu niðri.

Frekari upplýsingar um geimstöðina og áhöfn hennar má finna hér, á vef NASA.

Geimfarinn Peggy Whitson hefur upplifað neyðarlendinug sem þessa. Þegar hún sagði frá upplifun sinni sagðist hún aldrei hafa verið viss um hvort hún sneri upp eða niður þegar geimfarið féll til jarðar. Að endingu hægði á geimfarinu þegar það kom inn í lofthjúpinn en þá hitnaði það verulega. Að endingu var fallhlífum beitt og þar að auki litlum eldflaugum til að draga úr hraða geimfarsins.

þrátt fyrir það var lendingin verulega hörð. Hér má lesa um frásögn Whitson.

Fréttin hefur verið uppfærð.

Hér má sjá beina útsendingu frá NASA. Yfirleitt er ekkert hljóð en kynnar NASA koma reglulega inn í útsendinguna og segja frá nýjustu vendingum í málinu.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.