Innlent

Sex ára dómur yfir Sveini Gesti staðfestur

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Sveinn Gestur Tryggvason við aðalmeðferð málsins í Landsrétti á dögunum.
Sveinn Gestur Tryggvason við aðalmeðferð málsins í Landsrétti á dögunum. Vísir/Friðrik Þór
Landsréttur hefur staðfest sex ára fangelsisdóm yfir Sveini Gesti Tryggvasyni fyrir stórfellda líkamsárás sem leiddi til dauða Arnars Jónssonar Aspar á Æsustöðum í Mosfellsdal í júní í fyrra.

Mbl.is greinir frá en Sveinn Gestur hefur ekki tekið ákvörðun um hvort hann sæki um áfrýjunarleyfi til Hæstaréttar eður ei. Til þess hefur hann fjórar vikur.

Þá var Sveinn Gestur dæmdur til að greiða fjórar milljónir króna í áfrýjunarkostnað og kostnað verj­anda síns og rétt­ar­gæslu­manna fjöl­skyldu Arn­ars.

Í héraði var Sveinn Gestur dæmdur til að greiða ættingjum Arnars samanlagt um 33 milljónir króna í miskabætur.



Sveinn Gestur líkti rannsókn á Æsustaðamálinu við rannsókn lögreglu á Guðmundar- og Geirfinnsmálinu við aðalmeðferðina í Landsrétti. Sveinn hélt því fram að rannsakendur hefðu eytt miklu púðri í að rifja upp hluti sem gerðust ekki, valið atriði úr sumum skýrslum vitna og reynt að fá alla aðra til að rifja þau atriði upp.

Vildi Sveinn Gestur meina að sökin lægi frekar hjá Jóni Trausta Lútherssyni en honum sjálfum. Hann hefði ekki greint frá því á sínum tíma til að halda hlífisskyldi yfir Jóni Traust.

Jón Trausti lá undir grun og sat í gæsluvarðhaldi um tíma eins og Sveinn Gestur. Héraðssaksóknari ákærði á endanum Svein Gest og studdist við framburð vitnis sem lýsti því hvernig Sveinn Gestur hefði beitt Arnar ofbeldi án aðkomu Jóns Trausta.

Dómurinn hefur ekki verið birtur á vef Landsréttar enn sem komið er. Landsréttur staðfesti sem fyrr segir dóminn úr héraði og því má ætla að lítið mark hafi verið tekið á breyttum framburði Sveins Gests í Landsrétti.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×