Innlent

„Lognið á undan storminum“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Það verður ágætis veður í dag en von er á haustlægð á morgun.
Það verður ágætis veður í dag en von er á haustlægð á morgun. vísir/vilhelm

Samkvæmt hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands er tíðindalítill dagur í vændum í veðrinu í dag en spáð er hvassviðri eða stormi og úrkomu víða á morgun þegar lægð kemur að landinu úr suðri. Veðrið í dag er í raun lognið á undan storminum:

„Það er tíðindalítill dagur í vændum í veðrinu og í raun er þetta lognið á undan storminum. Vestlæg eða breytileg átt í dag með vætu fyrir norðan, en að mestu þurrt sunnan heiða. Léttir víða til í kvöld með frekar hægum vindi sem eru kjöraðstæður fyrir kalda nótt, enda útlit fyrir næturfrost um mest allt land, einkum inn til landsins,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Á morgun verður svo einna hvassast með suðurströndinni þar sem útlit er fyrir að meðalvindur geti farið upp í 25 metra á sekúndu í Vestmannaeyjum, undir Eyjafjöllum og í Öræfum.

„Hviður við fjöll geta hæglega farið í 35 m/s á svæðinu og vert að gæta að lausamunum og bílum sem taka á sig vind. Bent er á gular viðvaranir sem eru í gildi,“ segir á vef Veðurstofunnar.

Veðurhorfur í dag og næstu daga:

Vestlæg eða breytileg átt 5-13 m/s með morgninum. Sums staðar slydda eða rigning með köflum á N-verðu landinu, en þurrt að kalla S-til. Hiti 3 til 8 stig í dag, en kólnar í kvöld með næturfrosti um mest allt land.

Gengur í austan og norðaustan 13-23 m/s á morgun með rigningu eða slyddu, hvassast S-lands. Hiti 1 til 9 stig, mildast syðst.

Á miðvikudag:
Gengur í austan og norðaustan 13-23 m/s með rigningu eða slyddu, hvassast sunnanlands. Hiti 1 til 8 stig, mildast syðst.

Á fimmtudag:
Snýst í hvassa norðanátt með slyddu eða snjókomu á norðanverðu landinu, rigningu með A-ströndinni, en styttir upp S-lands. Hiti frá frostmarki í innsveitum fyrir norðan, upp í 7 stig syðst. Hægari um kvöldið.

Á föstudag:
Hæg vestlæg eða breytileg átt og léttir víða til, en él á stöku stað við ströndina. Kalt í veðri.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.