Erlent

Sárnar ummæli Breta

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs ESB.
Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs ESB. Nordicphotos/AFP
Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins, sagði í gær að ummæli Jeremys Hunt, utanríkisráðherra Bretlands, væru særandi.

Hunt sagði á landsfundi Íhaldsflokksins í Birmingham í vikunni að Evrópusambandið væri eins og Sovétríkin þar sem það reyndi að refsa Bretum fyrir að vera á útleið úr sambandinu.

„ESB var stofnað til þess að vernda frelsi. Það voru svo Sovétríkin sem komu í veg fyrir að fólk færi,“ sagði Hunt.

Tusk, sem var áður forseti Póllands og bjó því stóran hluta ævi hinum megin við járntjaldið, kallaði eftir því að Hunt sýndi ESB virðingu.

„Samanburður ESB og Sovétríkjanna er jafn vitlaus og hann er móðgandi. Sovétríkin einbeittu sér að því að fangelsa fólk í gúlaginu, að landamærum og múrum, ofbeldi gegn eigin þegnum og grannríkjum. Evrópusambandið snýst um frelsi og mannréttindi, hagsæld og frið, líf án ótta, lýðræði. Heimsálfu án innri landamæra og múra. Sem forseti leiðtogaráðsins og einstaklingur sem eyddi helmingi ævi sinnar innan Sovétblokkarinnar veit ég vel um hvað ég er að tala,“ sagði Tusk.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×