Erlent

Kínverjar staðfesta að hafa forseta Interpol í haldi

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Meng Hongwei, forseti alþjóðalögreglunnar Interpol, er nú í haldi kínverskra stjórnvalda.
Meng Hongwei, forseti alþjóðalögreglunnar Interpol, er nú í haldi kínverskra stjórnvalda. Vísir/AP
Kínversk stjórnvöld hafa viðurkennt að vera með Meng Hongwei, forseta alþjóðalögreglunnar Interpol, í haldi. Hongwei hefur verið talinn týndur og ekkert til hans spurst síðan 25. september.

Í yfirlýsingu frá andspillingarstofnun kínverska ríkisins kom fram að Hongwei, sem er einnig aðstoðarráðherra í kínversku ríkisstjórninni, væri í haldi kínverskra yfirvalda en ástæða þess er þó enn nokkuð óljós. Ýmsir fjölmiðlar höfðu áður velt því upp að mögulega væri Hongwei í haldi í Kína. Það hefur nú fengist staðfest.

Margir hafa dregið þá ályktun að handtaka Hongwei sé liður í andspillingarherferð sem fyrirskipuð var af Xi Jingping, forseta Kína, en hann hefur lagt mikið upp úr því að uppræta spillingu í kínverska stjórnkerfinu. Þó hefur ekkert þess efnis verið staðfest.

Eiginkonan taldi hann vera í hættu

Fyrr í dag tjáði eiginkona forsetans, Grace Meng, sig við fjölmiðla þar sem hún taldi eiginmann sinn hafa verið í hættu síðan hann hvarf seint í september. Hann hafi sent henni mynd af hníf í SMS-skilaboðum, en hún tók því  sem merki um að ekki væri allt með felldu og að mögulega væri hætta á ferðum. 

Þá bað Meng um hverja þá hjálp sem hægt væri að fá við að finna eiginmann sinn. Þetta var áður en stjórnvöld í Kína gengust við því að hafa Hongwei í haldi.

Í yfirlýsingu sem Meng flutti bæði á ensku og kínversku sagði hún að þau hjónin væru bundin afar sterkum böndum.

„Hann myndi styðja mig í því sem ég er að gera. Þetta mál varðar sanngirni og réttlæti. Þetta mál varðar alþjóðasamfélagið. Þetta mál varðar  íbúa heimalands míns.“

Meng vildi ekki horfa í myndavélar fjölmiðla þegar hún flutti yfirlýsingu sína, af ótta við að auðkenni hennar kæmi í ljós og öryggi fjölskyldu hennar yrði stofnað í frekari hættu.


Tengdar fréttir

Forseti Interpol sagður í haldi í Kína

Talið er að forseta alþjóðalögreglunnar Interpol, Meng Hongwei, sé haldið í varðhaldi í Kína. Grunur leikur á um að kínversk yfirvöld séu með Hongwei í yfirheyrslum. Frá þessu greinir AFP-fréttastofan.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.