Innlent

Eldri borgarar duglegastir að kjósa

Jakob Bjarnar skrifar
Kjörsókn var mest í Árneshreppi eða 93,5 prósent en minnst í Reykjanesbæ 57,0 prósent.
Kjörsókn var mest í Árneshreppi eða 93,5 prósent en minnst í Reykjanesbæ 57,0 prósent. visir/vilhelm
Við sveitarstjórnarkosningarnar í vor voru 247.943 á kjörskrá og greiddu 167.622 kjósendur atkvæði í 71 sveitarfélagi, en sjálfkjörið í einu sveitarfélagi. Sveitarfélög voru tveimur færri en við kosningarnar 2014 vegna sameiningar sveitarfélaga á tímabilinu. Kosningaþátttakan var 67,6 prósent þar sem kosning fór fram eða heldur hærri en í sveitarstjórnarkosningunum 2014 þegar hún var dræmust eða 66,5 prósent. Kosningaþátttaka kvenna var 68,8 prósent og karla 66,5 prósent.

Þetta kemur fram í samantekt Hagstofunnar sem birt var nú í morgun. Þar segir ennfremur að mikill munur sé á þátttöku eftir sveitarfélögum. Kjörsókn var mest í Árneshreppi eða 93,5 prósent en minnst í Reykjanesbæ 57,0 prósent. „Í Reykjavík var kosningaþátttakan 67,1% eða svipuð og á landinu í heild.“

Hagstofan birtir nokkur lýsandi súlurit með frétt sinni. Hér má sjá þróun kosningaþátttöku yfir nokkurra áratuga tímabil.

Hér má sjá þróun kosningaþátttöku sem virðist aðeins vera að braggast eftir talsverða niðursveiflu.hagstofan
Í samantektinni kemur fram að Kosningaþátttaka var almennt minni í yngri aldurshópum eins og í sveitarstjórnarkosningum 2014, forsetakjöri 2016 og alþingiskosningum 2016 og 2017.

„Minnst kosningaþátttaka var í aldurshópnum 20–24 ára en tæpur helmingur þeirra greiddi atkvæði í kosningunum (48,1%) og rétt rúmur helmingur þeirra sem voru 25–29 ára (51,2%). Hinsvegar mætti yngsti aldurshópurinn, 18–19 ára, betur á kjörstað (53,7%).“

Eldri borgarar eru hins vegar duglegastir að mæta á kjörstað. Þátttaka var mest í aldurshópnum 65–74 ára eða um 83 prósent. En, minnkaði svo með hækkandi aldri. „Var þessu svipað farið hjá konum og körlum en þátttaka kvenna eftir aldri var meiri en karla að aldurshópnum 65–69 ára þegar viðsnúningur varð og var kjörsókn eldri karla meiri en kvenna.“
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.