Innlent

Bílaviðgerðir í núverandi mynd leggist af

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar

Smurverkstæði, pústþjónusta, bremsuviðgerðir og bílaverkstæði í núverandi mynd verða úr sögunni á næstu árum ef markmið ríkistjórnarinnar um rafbílavæðingu bílaflotans ganga eftir að sögn eiganda vélaverkstæðis. Greinin muni laga sig að þróuninni en ljóst sé að gríðarlegar breytingar verði á öllum störfum.

Í aðgerðaráætlun ríkistjórnarinnar í loftslagsmálum sem kynnt var í gær kemur fram að bannað verður að kaupa nýja bensín eða díselbíla árið 2030. Þá er stefnt að uppbyggingu innviða fyrir rafbíla. Guðmundur Ingi Skúlason eigandi vélaverkstæðisins Kistufells segir að þar séu menn byrjaðir að undirbúa sig fyrir breytta tíma.

Guðmundur Ingi Skúlason eigandi vélaverkstæðisins Kistufells segir að þar séu menn byrjaðir að undirbúa sig fyrir breytta tíma vegna rafbílavæðingar bílaflotans.

„Þetta kemur til með að breytast, við erum að fara meira í almennari viðgerðir líka af því að það kemur til með að minnka hjá okkur á næstu árum eða áratugum. Ef bensínvélin dettur svo alveg út þá hefur það gríðarmikil áhrif hjá okkur. Og ekki bara hjá okkur heldur hjá flestum þeim sem starfa í greininni. Öll endurvinnsla á vélum hættir þar með og smur- og pústþjónusta. Bremsur rafbíla slitna mun minna en hjá bensín-og díselbílum og því mun slík þjónusta einnig minnka stórum. En þetta er bara eitthvað sem við þurfum að taka inní framtíðarplön okkar “ segir hann.

Alexander Svanur Guðmundsson vinnur hjá Kistufelli en hann útskrifaðist úr bifvélavirkjun frá Borgaholtsskóla í fyrra. Hann segir að nokkur hluti námsins hafi farið í fræðslu um rafbíla og er óhræddur við þróunina.  

„Mér finnst spennandi að upplifa þessi tímamót og er viss um að rafbílavæðing bílaflotans hér á landi sé eina vitið,“ segir hann.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.