Fótbolti

Eigandi Napoli til í að kaupa Hajduk Split

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Aurelio de Laurentiis er farinn að safna knattspyrnufélögum en hann er einnig öflugur kvikmyndaframleiðandi.
Aurelio de Laurentiis er farinn að safna knattspyrnufélögum en hann er einnig öflugur kvikmyndaframleiðandi. vísir/getty
Það er vandræðaástand á króatíska liðinu Hajduk Split en hinn skrautlegi eigandi Napoli, Aurelio de Laurentiis, er til í að bjarga félaginu.

Það hafa verið eintóm peningavandræði á liðinu síðustu ár og staðan nú er sú að stuðningsmenn félagsins eiga liðið.

„Ef þið gefið mér tækifæri þá skal ég kaupa félagið,“ sagði De Laurentiis.

Vandamálið er samt að stuðningsmennirnir vilja ekki selja til moldríks eiganda þó svo það þýði að félagið geti ekki keppt á félagaskiptamarkaði.

Engu að síður er ekki víst að þeir geti staðið undir fjárhagslegum skuldbindingum félagsins og þegar að því kemur gæti De Laurentiis stokkið inn.

Í byrjun ágúst keypti hann ítalska félagið Bari sem þá var farið á hausinn. Stuðningsmenn Napoli voru ekki hrifnir af því og óttast að kraftar eigandans fari meira í að styðja Bari með þeim afleiðingum að Napoli fari að gefa eftir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×