Enski boltinn

VAR prófað í fimm leikjum ensku úrvalsdeildarinnar um helgina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
VAR á HM í Rússlandi í sumar.
VAR á HM í Rússlandi í sumar. Vísir/Getty

Myndbandadómgæslan er á leiðinni inn í enska fótboltann. Það kemur fátt í veg fyrir það úr þessu. Velgengni VAR á HM í Rússlandi í sumar hefur breytt allri umræðunni um myndbandadómara í Englandi.

Enska úrvalsdeildin er farin að auka prófanir sínar í þessu máli og um helgina verður VAR prófað í fimm leikjum í ensku úrvalsdeildinni. BBC segir frá.

VAR var prófað á einstökum leikjum á síðasta tímabili en núna vill enska úrvalsdeildin prófa kerfið þegar margir leikir fara fram á sama tíma.Leikirnir sem verða með VAR um helgina verða laugardagsleikirnir fimm sem hefjast klukkan 14.00 að íslenskum tíma en 15.00 að staðartíma.

Laugardagsleikirnir eru eftirtaldir: Bournemouth-Leicester, Chelsea-Cardiff, Huddersfield-Crystal Palace, Manchester City-Fulham og Newcastle United-Arsenal.

Þetta verður hins vegar ekki alvöru VAR því myndbandadómararnir verða ekki í neinu sambandi við dómara leikjanna.

Tilraunverkefnið mun snúa að mörkum, vítadómum, rauðum spjöldum og ef dómari refsar vitlausum leikmönnum.  

Félögin í ensku úrvalsdeildinni höfnuðu því í apríl síðasliðnum að nota VAR á tímabilinu 2018-19 en kerfið var notað í bikarkeppnunum á síðustu leiktíð.

VAR sló síðan í gegn á HM í Rússlandi í sumar þar sem FIFA sýndi hvernig á að nota myndbandadómarar með markvissum, fljótum og öruggum árangri.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.