Enski boltinn

VAR prófað í fimm leikjum ensku úrvalsdeildarinnar um helgina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
VAR á HM í Rússlandi í sumar.
VAR á HM í Rússlandi í sumar. Vísir/Getty
Myndbandadómgæslan er á leiðinni inn í enska fótboltann. Það kemur fátt í veg fyrir það úr þessu. Velgengni VAR á HM í Rússlandi í sumar hefur breytt allri umræðunni um myndbandadómara í Englandi.

Enska úrvalsdeildin er farin að auka prófanir sínar í þessu máli og um helgina verður VAR prófað í fimm leikjum í ensku úrvalsdeildinni. BBC segir frá.

VAR var prófað á einstökum leikjum á síðasta tímabili en núna vill enska úrvalsdeildin prófa kerfið þegar margir leikir fara fram á sama tíma.





Leikirnir sem verða með VAR um helgina verða laugardagsleikirnir fimm sem hefjast klukkan 14.00 að íslenskum tíma en 15.00 að staðartíma.

Laugardagsleikirnir eru eftirtaldir: Bournemouth-Leicester, Chelsea-Cardiff, Huddersfield-Crystal Palace, Manchester City-Fulham og Newcastle United-Arsenal.

Þetta verður hins vegar ekki alvöru VAR því myndbandadómararnir verða ekki í neinu sambandi við dómara leikjanna.

Tilraunverkefnið mun snúa að mörkum, vítadómum, rauðum spjöldum og ef dómari refsar vitlausum leikmönnum.  

Félögin í ensku úrvalsdeildinni höfnuðu því í apríl síðasliðnum að nota VAR á tímabilinu 2018-19 en kerfið var notað í bikarkeppnunum á síðustu leiktíð.

VAR sló síðan í gegn á HM í Rússlandi í sumar þar sem FIFA sýndi hvernig á að nota myndbandadómarar með markvissum, fljótum og öruggum árangri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×