Enski boltinn

Mourinho hélt fimm mínútna varnarræðu um Rashford

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Rashford og Mourinho.
Rashford og Mourinho. vísir/getty

Jose Mourinho, stjóri Man. Utd, fór mikinn á blaðamannafundi sínum í morgun og þá aðallega er hann varði það hvernig hann notar ungstirnið Marcus Rashford.

Margir hafa gagnrýnt Mourinho fyrir það hvernig hann notar Rashford og óttast að honum sé ekki að takast að þróa Rashford í rétta átt á sínum ferli.

Jose tekur því eðlilega ekki vel. Hann mætti vel vopnum búinn með tölfræði í morgun og hóf mikinn reiðilestur.

„Talandi um Marcus þá býst ég fastlega við því að ég verði harðlega gagnrýndur fyrir að láta hann ekki spila um helgina,“ sagði Mourinho.

„Margir eru með mig á heilanum og einhverjir eru sjúkir lygarar. Því er kannski ágætt að rifja það upp fyrir þá sem ætla að gagnrýna mig fyrir að spila honum ekki að hann er í banni.“

Mourinho með Rashford og Lingard. vísir/getty

Fín opnun hjá Portúgalanum en svo hófst alvöru lesturinn.

„Ef þið megið missa af tveimur mínútum eða svo þá ætla ég að gera svolítið fyrir stuðningsmenn félagsins en ekki fyrir ykkur. Leiktíðina 2016-17 spilaði Rashord 32 leiki í úrvalsdeildinni,  11 í Evrópudeildinni, 3 í bikarnum og 6 í deildabikarnum. Hann kom við sögu í 53 leikjum og spilaði í heild 3.068 mínútur.

„Leiktíðina 2017-18 spilaði hann 35 leiki í úrvalsdeildinni, 8 í Meistaradeildinni, 5 í bikarnum, 3 í deildabikar og Super Cup. Hann spilaði í heildina 52 eða í 2.676 mínútur. Á tveimur tímabilum eru þetta 105 leikir, 5.774 mínútur og 63,7 leikir í 90 mínútur. Þar af eru fimm úrslitaleikir. Þeir sem eru að tala um þessar tölur hafa verið eitthvað ringlaðir hingað til.“

Mourinho fór svo að bera sinn mann saman við aðra unga, enska leikmenn sem eru í vandræðum með fá mínútur hjá sínum liðum.

„Marcus er ekki Dominic Solanke eða Ruben Loftus-Cheek. Hann er ekki eins og Dominic Calwert-Lewin. Marcus Rashford er leikmaður Man. Utd sem hefur spilað ótrúlega marga leiki á stærsta sviðinu. Ég segi því við stuðningsmenn, og aðeins við stuðningsmenn, að þið vitið hvað við gerum fyrir Marcus, Luke Shaw, Jesse Lingard og Scott McTominay.“Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.